Prentmet á Akranesi hefur verið til húsa við Heiðargerði 22 á Akranesi frá árinu 2000 þegar fyrirtækið keypti Prentverk á Akranesi en frá árinu 1970 hefur prentiðnaður verið stundaður í þessu 500 fermetra iðnaðarhúsnæði. Prentverk á Akranesi á sér sögu allt aftur til ársins 1942 en lesa má nánar um þá sögu hér.
Í dag var birt auglýsing þar sem að húsnæði Prenmets við Heiðargerði er til sölu. Sjá nánar hér.
Þórður Elíassson prentsmiðjustjóri Prentmets á Akranesi segir að fyrirtækið sé að skoða alla möguleika varðandi framtíð Prentmets á Akranesi.
„Húsnæðið i sem við erum í er í dag alltof stórt fyrir okkur,“ segir Þórður en tveir starfsmenn eru í starfsstöð Prentmets á Akranesi.
Þórður segir að ekki sé búið að taka ákvörðun um að hver næstu skref verði á Akranesi hjá fyrirtækinu.
„Ef það tekst að selja húsnæðið verður framhaldið skoðað,“ bætir Þórður við.
Pósturinn, auglýsingablað, hefur verið lykilframleiðsluvara hjá Prentmet á Akranesi í mörg ár. Póstinum er dreift í öll hús á Vesturlandi einu sinni í viku. Það eru fleiri áskoranir framundan í þeirri framleiðslu þar sem að Íslandspóstur hefur boðað þá breytingu að hætt verði að bera út fjölpóst á vegum fyrirtækisins á Akranesi og víðar frá og með 1. maí. Þórður sagði í samtali við Skagafréttir að Prentmet hafi ekki fengið upplýsingar frá Íslandspósti varðandi þessa breytingu á þjónustu fyrirtækisins.