Leigufélagið Heimavellir seldu 18 íbúðir við Holtsflöt 4 á Akranesi í byrjun janúar og hefur sá verið gagnrýnd af mörgum og þar á meðal bæjarráði Akraness.
Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri fór yfir málið á síðasta fundi bæjarráðs og er óhætt að segja að þessi aðgerð hafi ekki fallið í góðan jarðveg á Akranesi.
Bæjarráð Akraness harmar þá þróun sem orðið hefur á leigumarkaði í bæjarfélaginu við það að leigufélagið Heimavellir seldi mikinn fjölda leiguíbúða á stuttum tíma og virðist að óbreyttu stefna á að selja enn fleiri eignir. Fjölskyldur og einstaklingar horfa nú fram á að missa heimili sitt og vandséð er hvernig sá vandi verður leystur á þeim leigumarkaði sem til staðar er í bænum. Aðgerðir leigufélagsins Heimavalla valda bæjarfulltrúum miklum vonbrigðum, sérstaklega í ljósi þess að markmiðið með stuðningi Íbúðalánasjóðs við kaup Heimavalla á eignunum, fyrir örfáum árum, var að stuðla að festu og öryggi á leigumarkaði. Ljóst er að það markmið er brostið með þessum gjörningi Heimavalla.