Jón Gísli Eyland Gíslason er ungur og efnilegur leikmaður úr röðum ÍA sem hefur leikið með yngri landsliðum Íslands í knattspyrnu.
Jón Gísli fór fyrir tveimur vikum í aðgerð á rist vegna álagsbrots í rist sem hann varð fyrir á æfingu með ÍA. Jón Gísli dvelur nú á heimaslóðum á Sauðárkróki þar sem hann safnar kröftum fyrir endurkomuna.
„Ég býst við því að geta byrjað að æfa af krafti með ÍA eftir 10-12 vikur,“ sagði Jón Gísli við skagafrettir.is í kvöld.
Jón Gísli er frá Sauðárkróki en hann kom til ÍA í byrjun ársins 2019. Jón Gísli er fæddur árið 2002 en hann hefur vakið athygli með liði ÍA fyrir vasklega framgöngu sína í ýmsum stöðum á vellinum. Hann hefur leikið með yngri landsliðum Íslands og verið fastamaður í byrjunarliði.