Ólöf B. Torfa – íbúi á Akranesi frumsýnir nýja íslenska kvikmynd í apríl


Ólöf B. Torfa hefur á undanförnum misserum gert góða hluti í kvikmyndabransanum á Íslandi en Ólöf er búsett á Akranesi. Í byrjun apríl mun Ólöf frumsýna nýja gamanmynd í fullri lengd – en hún leikstýrir myndinni og skrifaði einnig handritið. Myndin ber nafnið „Klassa-drusla“ og fjallar um vinkonur sem fara að vinna á sveitabæ yfir sumarið og lenda í allskonar sprenghlægilegum ævintýrum.

Myndin er fyrsta bíómynd Ólafar í fullri lengd, en áður hefur Ólöf vakið athygli fyrir skemmtilega hnyttinn kvikmyndastíl í stuttmyndum sínum líkt og Síðasta Sumar og Millenium Lausnir. 

„Ég er fædd og uppalin í sveit í Ísafjarðardjúpinu en einnig í Meðallandssveit fyrir austan við Kirkjubæjarklaustur. Frá árinu 2017 hef ég verið búsett hér Akranesi,“ segir Ólöf við skagafrettir.is.
Ólöf útskrifaðist af handrit og leikstjórabraut vorið 2016 og lýsir hún efnistökunum myndinni „Klassa-druslu“ með eftirfarandi hætti.

„Myndin fjallar um Þrælvana sveitapía sem grípur borgarbarnið vinkonu sína með sér út á land til að vinna á stórum sveitabæ yfir sumarið. Það rennur ekki vottur af sveitablóði í vinkonunni og í þokkabót hefur hún fengið nóg af því að vera hlátursefni annarra og fær þar af leiðandi villandi kennslu sveitapíunnar um hvernig á að vera betri, stærri og sterkari útgáfa af sjálfri sér. Tanja sem er leikin af Ylfu Marín Haraldsóttur er þreytt á að vera ástsjúk og leitar til bestu vinkonu sinnar Karenar sem Ásta Júlía Elíasdóttur leikur til að fá ráðleggingar hvernig á að vera klassa drusla.“

Ólöf segir ennfremur að orðið drusla sé orð sem henni þyki mjög vænt um.

„Þegar ég var lítil sveita stelpa var ég oft kölluð drusla vegna þess að fötin mín voru rifin og skítug og hárið úfið. Þegar ég var eldri var orðið notað í neikvæðri merkingu til að lýsa klæðaburð eða hegðun á unglingsárum og svo hefur þetta orð einnig verið notað þó nokkuð oft til að lýsa bílum mínum. Það skiptir mig því miklu máli að orðið sem hefur fylgt mér í gegnum árin sé hluti af fyrstu bíómyndinni minni. Ég vinn með þetta orð með skemmtilegum hætti í myndinni.