Þungur rekstur hjá KFÍA en spennandi ár framundan


Magnús Guðmundsson formaður Knattspyrnufélags ÍA sendi eftirfarandi pistil um stöðu mála hjá félaginu og það sem er framundan.

Knattspyrnufélag ÍA (KFÍA) hélt fyrir skemmstu aðalfund félagins þar sem stiklað var á stóru um árangur og störf ársins 2019.

Gríðarlega margt var jákvætt í starfssemi félagins á síðasta starfsári, meistaraflokkur karla sýndi mátt sinn og megin meðal þeirra bestu. Mmeistaraflokkur kvenna náði að snúa vörn í sókn og byggja til framtíðar. Og 2. flokkur karla varð Íslandsmeistari í A og B liðum, ásamt því að ná besta árangri íslensks félags í Evrópukeppni 2. flokks.

Þá átti KFÍA fjölmarga landsliðsmenn og konur í yngri landsliðum og tók félagið risastórt skref inn í framtíðina með ráðningu yfirmanns afreksmála hjá félaginu.

Reksturinn var hinsvegar þungur á liðnu starfsári sem helgast meðal annars af því að fyrirtæki sem hafa stutt við félagið hafa lækkað styrki sína og/eða hætt að styrkja félagið.

Laun og annar rekstrarkostnaður hækkaði einnig umtalsvert milli ára og samanlögð áhrif þessa eru að félagið skilaði um 61 milljóna króna taprekstri á árinu 2019, í stað 47 milljóna króna hagnaðar á árinu 2018.Stjórn Knattspyrnufélags ÍA og framkvæmdastjóri í samvinnu við þjálfara og aðra starfsmenn hafa nú þegar farið í sérstakar aðgerðir við að greina vandann, draga úr kostnaði og auka tekjur.

Á árinu 2020 er gert ráð fyrir fyrir miklum viðsnúningi í rekstri með því að draga úr útgjöldum og setja fram hóflega tekjuáætlun.

Áætlað er að rekstur ársins 2020 skili jákvæðri niðurstöðu um 15 milljónir kr.

Magnús Guðmundsson.

Ég finn fyrir miklum krafti og jákvæðu hugarfari í kringum félagið. Við erum öll stoltir Skagamenn og við ætlum að standa saman að því að koma félaginu okkar í fremstu röð.

Markmið okkar er að vera meðal þeirra bestu og slást um þá tiltla sem er í boði. Við þurfum að gera það á okkar eigin forsendum og nýta styrkleika okkar sem félags og íþróttabæjar utan höfuðborgarinnar.

Munum að í mótvindi felast mörg tækifæri og slíkar aðstæður geta styrkt félagið til lengri tíma ef rétt er haldið á spöðunum. Ég er mjög spenntur fyrir komandi ári í fótboltanum og trúi að þetta verði árið sem við tökum næsta skref bæði karla og kvenna megin.“

Áfram ÍA
Magnús Guðmundsson formaður KFÍA.

Hér fyrir neðan eru ársreikningar og árskýrsla KFÍA frá aðalfundinum.