Helga Ingibjörg: „Strákurinn minn og „bjargaröllulím“ róuðu mig niður á sviðinu


Helga Ingibjörg Guðjónsdóttir söngkona verður í sviðsljósinu á úrslitakvöldi Söngvakeppninnar sem verður í beinni útsendingu á laugardagskvöld á RÚV.

Helga Ingibjörg syngur þar lagið „Meet Me Halfway“ – ásamt Ísold Wilberg en þær slógu svo sannarlega í gegn á fyrra undanúrslitakvöldinu.

Helga Ingibjörg segir í samtali við skagafrettir.is að upplifun hennar á undanúrslitakvöldinu hafi verið mögnuð og þar lék ungur sonur hennar stórt hlutverk í að róa mömmuna.

„Helga ætlar þú að klúðra þessu?“

„Ég viðurkenni alveg að ég var mjög stressuð þegar sviðsmaður RÚV var að leiða okkur upp á sviðið. Ég stífnaði upp í hálsinum og sagði við sjálfa mig; „Helga ætlar þú að klúðra þessu núna útaf einhverju stressi. Það hljómar kannski sem klisja en það breyttist allt þegar ég steig fram á sviðið.

„Þegar ég sá strákinn minn, Hagalín Pálma og fjölskylduna mína, úti í salnum þá fór ég að slaka á. Ég ætlaði að gera mitt besta fyrir hann og fjölskylduna mína sem var einnig á svæðinu. Mér fannst þetta ótrúlega gaman og eftir flutninginn var algjört spennufall hjá okkur. Hamingjan var hinsvegar allsráðandi eftir svona góðan flutning á laginu.“

Viðtökurnar framar vonum

Helga Ingibjörg segir að viðtökurnar hafi verið framar vonum og miklu meiri og betri en þær stöllur hafi gert ráð fyrir.

„Við höfðum engar væntingar þegar við fórum inn í þetta nema þær að gera okkar allra besta. Eftir flutninginn okkar þá vissum við að við hefðum gefið allt í þetta. Fólk var hissa en jafnframt mjög ánægt með okkur. Við vorum náttúrulega alveg óþekktar og fólk vissi ekki við hverju var að búast af okkur. Það er líka alveg ótrúlega yndislegt að finna allan stuðninginn frá fólki í kring um mann, hér í bæjarfélaginu og einnig í uppeldissveitinni minni, Dalasýslu. Svo ótrúlega gaman að fá kveðjur, hrós og finna hvað fólk er ánægt og stolt með okkur.“

Örlitlar breytingar verða á laginu á úrslitakvöldinu og sú helsta að lagið verður flutt á ensku.

„Atriðið í heild verður svipað og undirbúningur okkar verður svipaður og fyrir undankvöldið. Æfa, slaka á, sofa vel og einbeita okkur að því að gera enn betur en á undankvöldinu og halda áfram að gera alla stolta af okkur.“

Snemma dags á fyrra undanúrslitakvöldinu hóf Helga Ingibjörg undirbúning sinn með heimsókn í Húsasmiðjuna við Esjubraut á Akranesi. Útsendari Skagafrétta var á svæðinu og veitti því athygli að Helga Ingibjörg keypti teppalím til þess að græja sig fyrir kvöldið. Stóra spurningin er hvaða hlutverki teppalímið þjóni á slíkum stundum?

„Bjargaröllulím“ og gott „pepp“ kom að góðu gagni

„Teppalím ætti í raun og veru að vera kallað „bjargaöllulím”. Þetta lím bjargaði jakkanum mínum því ekki vildum við fá „slys” í fjölskylduþáttinn á laugardagskvöldi,“ segir Helga Ingibjörg í léttum tón. Hún bætir því við að það sé gott að finna fyrir öllum þeim stuðningi sem hún finnur fyrir hjá íbúum á Akranesi

„ Það var ótrúlega gaman og notalegt að koma inn í Húsasmiðjuna og fá smá pepp og heyra hvað íbúar á Akranesi voru áhugasamir og spenntir yfir þessari undankeppni. Ég tók þessi hrós alveg með mér á sviðið í undankeppninni og mun gera það klárlega aftur í úrslitunum,“ segir Helga Ingibjörg að lokum.

http://localhost:8888/skagafrettir/2020/02/24/helga-og-isold-hita-upp-fyrir-urslitin-med-unplugged-utgafu-af-meet-me-halfway/