Á fundi stjórnar Faxaflóahafna sf. í gær var lagt fram bréf Gísla Gíslasonar hafnarstjóra þar sem hann segir starfi sínu lausu. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.
„Undirritaður hefur gegnt starfi hafnarstjóra í á fimmtánda ár og tímans gangur sá að skynsamlegt sé að huga að starfslokum. Því segi ég undirritaður upp störfum með umsömdum uppsagnarfresti sem er sex mánuðir. Samkvæmt því verða starfslok í lok ágústmánaðar,“ segir Gísli í bréfinu.
„Ég verð 65 ára gamall á árinu og því góður tími til að taka lokasprettinn á vinnumarkaðnum,“ segir Gísli aðspurður í Morgunblaðinu í dag. Hann sé búinn að vera í þessu daglega ati í 35 ár og því kominn tími til að hægja aðeins á.