Forstjóri Landsvirkjunar og stjórnarformaður Landsvirkjunar eru harðlega gagnrýndir í ályktun var samþykkt á síðasta fundi bæjarráðs þann 27. febrúar sl. Ályktunin er hér fyrir neðan.
„Í ágústmánuði síðasta árs sendu sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar og bæjarstjórn Akraness sameiginlega frá sér áskorun til ríkisstjórnar Íslands um stefnubreytingu í málefnum orkusækins iðnaðar, þar sem vakin var athygli ríkisstjórnarinnar á því að ríkisfyrirtækið Landsvirkjun, hefði í krafti yfirburða stöðu í raforkusölu á stórnotendamarkaði knúið fram mjög miklar hækkanir á raforkuverði til orkusækins iðnaðar sem leitt gæti til verulegs samdráttar í starfsemi stórfyrirtækja á Grundartanga með tilheyrandi fækkun starfa. Þar væri einvörðungu hugsað um að hámarka arðsemi Landsvirkjunar en ekki að horft til heildarhagsmuna þjóðarinnar.
Í kjölfar áskorunarinnar ákvað Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamála- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra að láta kanna samkeppnishæfni orkusækins iðnaðar fyrsta sinni á Íslandi og vill bæjarráð þakka ráðherra sérstaklega fyrir það.
Nú hafa fleiri fyrirtæki í orkusæknum iðnaði stigið fram og vakið athygli á þessari stefnu Landsvirkjunar og alvarlegum afleiðingum hennar fyrir rekstur fyrirtækjanna og framtíðarfjárfestingar á Íslandi og lýst því yfir að komið gæti til þess að fyrirtækin hætti starfsemi á Íslandi sem hefði alvarlegar afleiðingar fyrir atvinnu fjölmargra starfsmanna og íslenskt þjóðarbú. Samtök iðnaðarins hafa einnig vakið athygli á þeirri stöðu sem uppi er.
Forstjóri Landsvirkjunar hefur komið fram í öllum helstu fjölmiðlum landsins og varið stefnu Landsvirkjunar með óvenjumikilli hörku. Bæjarráð harmar að forstjórinn skuli í málflutningi sínum reyna að tortryggja erlent eignarhald orkusækinna iðnfyrirtækja sem og innri viðskipti þeirra og reyni að mála þá mynd að hagsmunir fyrirtækjanna og hagsmunasamtaka þeirra fari ekki saman með hagsmunum íslensku þjóðarinnar.
Stjórn Landsvirkjunar ber alla ábyrgð á stefnu fyrirtækisins og framgöngu forstjórans og því kallar bæjarráð eftir því að stjórnarmenn Landsvirkjunar, og þá sérstaklega stjórnarformaðurinn, Jónas Þór Guðmundsson, stígi fram úr skugga forstjórans og útskýri fyrir íslensku þjóðinni hvert stjórn Landsvirkjunar sæki umboð sitt til að ganga fram með þessum hætti ásamt því að skýra opinberlega frá því hver stefna Landsvirkjunar er í málefnum orkusækins iðnaðar og hvernig hún samræmist leiðarljósum fyrirhugaðrar orkustefnu um að;
- hámarka samfélagslegan ávinning af nýtingu orku
- styðja við atvinnustefnu í samspili við lykilatvinnugreinar
- styðja við byggðastefnu og jákvæða byggðaþróun til lengri tíma
Einnig kallar bæjarráð eftir aðkomu Samkeppniseftirlitsins til að kanna og meta samkeppnisumhverfi í sölu á raforku til orkusækins iðnaðar og skýra þær leikreglur sem þar gilda.“