Nýr veitingastaður við Kirkjubraut? – „Grjótið Bistro bar“


Það eru töluverðar líkur á því að meira líf verði í gamla miðbænum á Akranesi á næstu misserum. Nýr veitingastaður er í burðarliðnum á þessum slóðum – en það kemur fram í fundargerð bæjarráðs Akraness.

Haraldur Helgason, sem er stjórnarformaður félagsins Grjótið Bistro-bar ehf, hefur sótt um rekstrarleyfi fyrir veitingastað við Kirkjubraut 8-10.

Embætti Sýslumannsins á Vesturlandi er með umsókn frá Grjótið Bistro-bar vegna reksturs veitingastaðar í flokki III.

Í þeim flokki eru veitingastaðir skilgreindir sem skemmtistaður, veitingastofa, greiðasala, kaffihús, krá og samkomusalur.

Sýslumannsembættið óskaði eftir umsögn Akraneskaupstaðar vegna málsins ásamt umsögn slökkviliðsstjóra og byggingarfulltrúa.

Á síðasta fundi bæjarráðs kemur fram að Akraneskaupstaður gerir ekki athugasemdir við útgáfu umbeðins rekstrarleyfis. Slökkviliðsstjór og byggingafulltrúi Akraneskaupstaðar eiga eftir að gefa umsögn.