„Það er búið að vera brjálað gera“ – Skagafiskur slær í gegn hjá Skagamönnum


„Við erum gríðarlega þakklát og ánægð með viðtökurnar. Það er búið að vera brjálað í gera allt frá því að við opnuðum kl. 11 í morgun. Og við höfum fengið margar góðar kveðjur frá viðskiptavinum okkar í dag,“ segir Pétur Ingason eigandi fiskverslunarinnar Skagafisks sem opnaði i dag við Kirkjubraut 40 á Akranesi.

Skagafiskur er sannkallað fjölskyldufyrirtæki en hjónin Pétur Ingason og Jónheiður Gunnbjörnsdóttir standa í brúnni ásamt syni sínum Björgvini Inga .

„Sonur okkar, Björgvin Ingi Pétursson, hefur mestu reynsluna af okkur í þessu fagi. Hann hefur starfað hjá Hafinu í Reykjavík í sex ár. Tengslin við Hafið eru enn til staðar því við fáum okkar hráefni frá þeim. Björgvin Ingi er því í aðalhlutverki hér og Jónheiður Gunnbjörnsdóttir eiginkona mín er einnig að vinna í þessu með okkur.“

Pétur segir að hugmyndin að Skagafiski hafi komið upp í fyrrasumar.

„Okkur fannst vanta fiskverslun hér á Akranesi og við ákváðum að fara í að opna Skagafisk í ágúst. Það gekk ekki vel fyrstu mánuðina að finna hentugt húsnæði. Þetta húsnæði hér við Kirkjubraut 40 datt síðan í fangið á okkur og við erum afar ánægð með þessa niðurstöðu. Hér erum við í hjarta bæjarins og aðgengið er gott fyrir alla.“

„Við erum frá Akureyri en fluttum á SV-hornið fyrir tveimur áratugum Ég starfaði hjá sama fyrirtækinu í 20 ár og fannst þetta vera rétti tíminn til þess að breyta til og prófa eitthvað nýtt. Hér á Akranesi höfum við verið búsett í tæpt ár. Það má segja að Björgvin Ingi hafi komið okkur á bragðið að stofna Skagafisk. Við vorum svo góðu vön þegar hann var að koma með frábæra fiskrétti úr Hafinu – og það var okkar tilfinning að svona þjónustu vantaði á Akranes. Við erum bjartsýn á að við höfum rétt fyrir okkur og bjóðum Skagamenn nær og fjær velkomin í Skagafisk,“ sagði Pétur Ingason að lokum.