Almenn ánægja með Opna daga í FVA – „Nemendur voru sérlega prúðir og skólanum til sóma“


Almenn ánægja var með Opna daga sem fram fóru í Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi í lok febrúar. Á Opnum dögum er hefðbundið skólahald brotið upp með ýmsum hætti.

Nemendur gátu valið að taka þátt í fjölbreyttum verkefnum, fyrirlestrum, og vettvangsferða á borð við skíðaferð í Bláfjöll. Á meðal þess sem var í boði var félagsvist, Pub Quiz (spurningakeppni), bíósýning, LAN-kvöld (tölvuleikir), sjósund, Crossfit (líkamsrækt), hnefaleika, bakstur, logskurð og rafsuðu, fótbolta, golf, fjöltefli og spil

Á lokakvöldinu var boðið upp á kaffihúsakvöld á vegum Nemendafélagsins, NFFA.

Í frétt á heimasíðu FVA kemur fram að starfsfólk FVA var sérstaklega ánægt með framkomu nemenda í vettvangsferðunum – „nemendur voru sérlega prúðir og skólanum til sóma,“ segir í tilkynningu frá starfsfólki FVA.

Þar að auki voru starfsfólki og nemendum FVA færðar þakkir fyrir að gera dagskrá Opna daga sem best úr garði.