Bein útsending frá „aðgerðunum“ á Laugardalsvelli í boði AdvaniaAdvania og KSÍ hafa komið upp vefmyndavél á Laugardalsvelli.

Þar má fylgjast með því hvernig þjóðarleikvöllurinn verður gerður leikhæfur fyrir umspilsleik karlalandsliðs Íslands fyrir lokakeppni EM. Mótherjar Íslands þann 26. mars er lið Rúmeníu. Sigurliðið úr þessari viðureign mætir síðan Ungverjalandi eða Búlgaríu í úrslitaleik um sæti í lokakeppni EM.

Það er mikil vinna framundan að gera Laugardalsvöll leikhæfan. Snjór er yfir vellinum en hitatjald verður sett yfir völlinn til þess að losa um frostið í grasinu. Dúkurinn verður fjarlægður nokkrum sinnum af vellinum á næstu þremur vikum fram að leik til þess að vallarstarfsmenn geti valtað völlinn, málað og jafnvel slegið grasið.

En hvernig er gras á Íslandi í lok mars á svona snjóþungum vetri?

„Grasið er í dvala og þó við séum að hita það upp þá fer það auðvitað ekki að spretta eins og um sumar. Aðgerðir okkar snúast fyrst og fremst um að gera leikflötinn eins góðan og hægt er svo hann sé öruggur fyrir leikinn. Þetta er auðvitað mjög óvenjulegt ástand og við höfum fengið til liðs við okkur mikla grassérfræðinga frá Bretlandi sem vakta völlinn allan sólarhringinn fram að leik,“ segir Skagamaðurinn Óskar Örn Guðbrandsson sem starfar á samskiptasviði KSÍ í viðtali á vef Advania.

Skagamaðurinn Bjarni Hannesson kemur að þessu verkefni sem nefndarmaður í mannvirkjanefnd KSÍ. Bjarni er einn fremsti grasvallasérfræðíngur landsins en hann starfar sem vallarstjóri á golfvellinum á Seltjarnesi.