Akraneskaupstaður bregst við neyðarstigi almannavarna með ýmsum hætti



Akraneskaupstaður hefur ákveðið að bregðast við neyðarstigi almannavarna vegna COVID-19 veirunnar í samráði við sóttvarnalækni Vesturlands til að tryggja sem best öryggi í þjónustu og starfsemi fyrir fólk sem er í viðkvæmri stöðu eða með undirliggjandi sjúkdóma.  

Akraneskaupstaður vinnur eftir viðbragðsáætlun við þessar aðstæður og hefur þjónusta velferðar- og mannréttindasviðs verið forgangsraðað í samræmi við hana. 

Viðbragsáætlun felst í eftirfarandi aðgerðum: 

Félagsstarf aldraðra og öryrkja
Félagsstarfi aldraðra og öryrkja að Kirkjubraut 40 verður lokað frá og með 9. mars. Allir hlutaðeigandi verða látnir vita um leið og hægt verður að hefja starfsemi að nýju.

Heilsuefling aldraðra
Heilsuefling aldraðra heldur áfram en verður þó ekki á Jaðarsbökkum. Boðið verður upp á gönguferðir og byrjum við strax á morgun, mánudaginn 9. mars. Fólk hittist á Aggapalli (sami tími og venjulega) og þar tekur Anna Bjarnadóttir á móti þátttakendum og gönguleiðin ákveðin. Sama gildir um stólaleikfimina á miðvikudögum. Í stað þess að vera inni þá verður farið í gönguferð. Nánari upplýsingar um það síðar.

Fjöliðjan vinnu- og hæfingarstaður
Fjöliðjan vinnu- og hæfingarstaður verður opin eins og staðan er í dag. En ekki er útilokað að breyta verði þeirri ráðstöfun í ljósi nýrra upplýsinga. Nánari upplýsingar verða veittar starfsmönnum og notendum (auk aðstandenda/persónulegra talsmanna) mánudaginn 9. mars. 

Heimaþjónusta (stuðnings- og stoðþjónusta)
Haft verður samband við alla sem njóta heimaþjónustu og aðilar upplýsir um fyrirkomulag þjónustunnar.

Búsetuþjónusta fatlaðra
Búsetuþjónusta fatlaðra verður órofin

Dagdvöl á Höfða
Dagdvöl aldraðra á Höfða verður lokuð frá og með 9. mars. Eftir að Neyðarstigi almannavarna var lýst yfir 6. mars var sú ákvörðun tekin í samráði við Sóttvarnalækni og Landlækni að loka Höfða hjúkrunar- og dvalarheimili fyrir heimsóknum ættingja og annarra gesta. Við þessar aðgerðir er dagdvöl fyrir aldraða á Höfða einnig lokuð.  Haft verður samband við alla þá einstaklinga sem eru í dagdvöl á morgun 9. mars. Samstarf er milli Höfða, heimahjúkrunar og heimaþjónustu Akraneskaupstaðar að útfæra þjónustu við þá einstaklinga á meðan þessar aðstæður eru.

Endurhæfingarhúsið Hver
Eins og staðan er í dag þá verður Endurhæfingarhúsið Hver opið.

Bent er á að Sóttvarnalæknir beinir því sérstaklega til þeirra sem teljast til viðkvæmra hópa, einkum þá sem eru með undirliggjandi sjúkdóma og eldri einstaklinga, að huga vel að hreinlætisaðgerðum og forðast mannamót að óþörfu.

Allar helstu upplýsingar um COVID-19 er að finna á vef Embætti landlæknis hér https://www.landlaeknir.is/.