Breytingar boðaðar á veitingarekstri Gamla KaupfélagsinsVeitingastaðurinn Gamla Kaupfélagið mun fara í gegnum miklar breytingar í byrjun maí á þessu ári. Þetta kemur fram í tilkynningu frá veitingahúsinu.

Í stuttu máli mun veitingastaður Gamla Kaupfélagsins loka í þeirri mynd sem staðurinn hefur verið rekinn á undanförnum árum. „Við opnum kát og hress nýjan möguleika í veitingaþjónustu á Akranesi ásamt því að efla okkur í veislu og viðburðaþjónustu,“ segir í tilkynningu frá Gamla Kaupfélaginu en tilkynningin er í heild sinni hér fyrir neðan.

„Hæ hó kæru viðskiptavinir, nú er komið að breytingum.

Frá og með 1.maí lokar veitingastaður Gamla Kaupfélagsins í því formi sem hann er rekinn í dag. Við opnum kát og hress nýjan möguleika í veitingaþjónustu á Akranesi ásamt því að efla okkur í veislu og viðburðaþjónustu.

Rekstur okkar á Akranesi hefur verið jákvæður frá upphafi og erum við gríðarlega stolt af starfsfólkinu okkar sem staðið hefur þétt saman í að gera frábæra hluti sem lýsir sér vel á Tripadvisor, en þar höfum við verið á toppnum á skaganum í langan tíma.

Við erum spennt og full tilhlökkunar við að takast á við nýja tíma með breyttum áherslum og allskonar skemmtilegheitum. Engar breytingar verða á fyrirtækjaþjónustu okkar á útsendum mat í hádeginu, veisluþjónustu eða viðburðahaldi meðan á framkvæmdum stendur.

Að þessu sinni getum við ekki sagt meira til um hvað sé framundan enn við hlökkum mikið til að kynna það fyrir ykkur síðar.

Bestu kveðjur, starfsfólk Veislu & Viðburða ehf, rekstraraðila Gamla Kaupfélagsins á Akranesi.“