Yfirvofandi verkfall BSRB mun hafa víðtæk áhrif á Akranesi


Miklar líkur eru á því að verkfall BSRB hefjist á miðnætti aðfaranótt mánudagsins 9. mars nema samningsaðilar nái samkomulagi fyrir þann tíma.Verkfallið nær til 16.000 starfsmanna á landsvísu, og þar á meðal hjá Akraneskaupstað, Höfða hjúkrunar- og dvalarheimili Reykjavíkurborg, Seltjarnarnesbæ og ríkisstofnanna.

Hjá Akraneskaupstað mun verkfallið ná til 86 starfsmanna og hafa eftirfarandi ráðstafanir verið gerðar.

Þjónustuver Akraneskaupstaðar
Þjónustuver Akraneskaupstaðar að Stillholti 16-18 verður lokað þar til samningar hafa náðst.

Grundaskóli
Verkfallið mun hafa áhrif á starfsemi skólans. Dæmi um þjónustu sem mun raskast er símsvörun og afgreiðsla skrifstofu þar sem skólaritari fer í verkfall. Truflun verður einnig á stuðningi í einstökum árgöngum svo og að ræsting skólahúsnæðis verður ekki eins og venjulegt er.

Brekkubæjarskóli
Verkfallið mun hafa áhrif á starfsemi skólans. Dæmi um þjónustu sem mun raskast er framleiðsla hádegismatar en matráður skólans fer í verkfall. Sökum þess verður ekki matur í mötuneyti og þurfa allir nemendur að koma með auka nesti. Þá verður skert þjónusta í einstök árgöngum vegna verkfalls stuðningsfulltrúa.

Leikskólar
Verkfallið mun hafa mismunandi áhrif á leikskólana og mun stjórnendur upplýsa foreldra / forráðamenn um þá röskun sem verður á hverjum og einum leikskóla.

Velferðarþjónusta
Verkfallið mun ekki hafa mikil áhrif á stofnanir velferðar- og mannréttindasviðs vegna undanþágulista. Hægt verður að ná í starfsmenn félagslegrar heimaþjónustu, barnavernd og félagsþjónustu eins og tilgreint er hér að ofan.

Akraneskaupstaður vinnur eftir viðbragðsáætlun vegna COVID-19 og hefur þjónusta velferðar- og mannréttindasviðs verið forgangsraðað í samræmi við hana. Lesa má nánar um það hér.