Dýrin í Hálsaskógi fara í leyfi þar til að samkomubanni verður afléttLeiklistaklúbburinn Melló úr Fjölbrautaskóla Vesturlands og Tónlistarskólinn á Akranesi ætlaði að frumsýna hið sögufræga leikrit Dýrin í Hálsaskógi eftir Thorbjorn Egner í leikstjórn Gunnars Björns Guðmundssonar sunnudaginn 15. mars.

En sýningunum hefur nú verið frestað vegna samkomubanns sem sett var á í gær.

Öllum viðburðum á vegum Fjölbrautaskólans er frestað um óákveðinn tíma frá og með mánudeginum 15. mars.

Fyrirhugaðri leiksýningu á Dýrunum í Hálsaskógi er frestað þar til samkomubanni er aflétt

Frá vinstri: Unndís Ida Ingvarsdóttir sem Marteinn skógarmús, Björgvin Þór Þórarinsson sem Mikki refur og Sigríður Sól Þórarinsdóttir sem Lilli klifurmús.

Dýrin í Hálsaskógi er sennilega eitt vinsælasta barnaleikrit allra tíma og tilvalin skemmtun fyrir alla fjölskylduna.

Lilli klifurmús er aðalpersóna verksins. Lilli er lífsglöð mús sem flakkar um skóginn með gítarinn sinn. Þar eru ýmsar hættur og þar fer fremstur Mikki refur. Þegar Mikki refur ætlar að éta Lilla spilar hann bara og syngur þar til refurinn sofnar. Lilla tekst sem betur fer að flýja. Vinur hans Lilla heitir Marteinn skógarmús. Marteinn er mikill hugsuður og hann fer að velta því fyrir sér hvers vegna dýrin í skóginum þurfi endilega að éta hvert annað. Marteinn fær snjalla hugmynd sem hann ber undir konung skógarins, sjálfan bangsapabba. Í kjölfarið fer af stað skemmtileg og spennandi atburðarás.

Saga Thorbjorns Egners. Lilli klifurmús og hin dýrin í Hálsaskógi kom fyrst út í íslenskri þýðingu Huldu Valtýsdóttur og Kristjáns frá Djúpalæk árið 1962. Þá þegar var leikritið vel þekkt, var sett upp í fyrsta sinn í Þjóðleikhúsinu 1962, sama ár og það var frumflutt í Kaupmannahöfn.