Samfélagsverkefnið „Karlarnir í skúrnum“ verður sett á laggirnar hér á Akranesi – en tillaga þess efnis var samþykkt á síðasta fundi bæjarráðs.
Það er Rauði kross Íslands sem stendur á bak við verkefnið sem er að
erlendri fyrirmynd. Ástralir hófu þessa vegferð en verkefnið hefur slegið í gegn víðs vegar í Evrópu og í Bandaríkjunum.
Markmiðið með þessu verkefni er að rjúfa félagslega einangrun karlamanna. Verkefnið fór af stað í Hafnarfirði í desember 2018 og fékk húsnæði í apríl 2019 að Helluhrauni 8 í Hafnarfirði. Enn sem komið er hefur verkefnið mest verið sótt af karlmönnum sem komnir eru á eftirlaun og fastur kjarni sækir aðstöðuna.
Sævari Frey Þráinssyni bæjarstjóra var falið að vinna að málinu ásamt sviðsstjóra velferðar- og mannréttindasviðs.
Karlar í skúrum er eins og áður segir samfélagslegt verkefni og er komin ágæt reynsla á það hjá bæjarfélögum á borð við Hafnarfjörð.
Hörður Sturluson verkefnisstjóri hjá Rauða krossinum segir í viðtali á lifdununa.is að markmiðið sé að rjúfa félagslega einangrum hjá karlmönnum og þá sérstaklega hjá ellilífeyrisþegum.
Viðtalið í heild sinni er hér.
„Þeir sem komnir eru á eftirlaun hafa oft mun rýmri tíma en hinir. Staðreyndin er hins vegar sú að þegar menn fara á eftirlaun þá missa þeir oft tengst við félaga og kunningja og sumir hafa misst maka sinn.
Markmiðið er að rjúfa félagslega einangrun þeirra,“ segir Hörður og bætir við að verkefnið sé að erlendri fyrirmynd. Það byrjaði í Ástralíu en hefur slegið í gegn víðs vegar um Evrópu og í Bandaríkjunum. Þannig eru rúmlega 400 skúrar á Írlandi þar sem yfir 10.000 karlar hittast í hverri viku.
„Rauði krossinn í Hafnarfirði réð mig til að sjá um þetta verkefni og ég fór meðal annars til Írlands að kynna mér hvernig þeir hafa staðið að þessu þar. Þeir byrjuðu fyrir átta árum og hafa því orðið góða reynslu sem þeir miðla til okkar. Fyrsti fundurinn okkar hér á Íslandi var í desember og þá mættu 15 til 20 karlar. Við héldum svo áfram að hittast og kynna verkefnið í vetur. Fyrsta mál á dagskrá var að finna hentugt húsnæði og það fengum við í apríl. Síðan hafa menn verið að innrétta og koma húsinu í stand. Við ætlum að byrja með 30 karla en getum örugglega bætt fleirum við því það mæta ekki allir alltaf þegar það er opið.“