Ísak Bergmann sá efnilegasti í Svíþjóð að mati Aftonbladet


Skagamaðurinn, Ísak Bergmann Jóhannesson, er efstur á lista yfir efnilegustu leikmenn sænsku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu. Frá þessu er greint á fréttavef Aftonbladet en fotbolti.net greindi fyrst frá hér á landi.

Ísak Bergmann er fæddur árið 2003 og er hann atvinnumaður hjá IFK Norrköping. Í valinu hjá Aftonbladet var valið úr hópi leikmanna sem eru fæddir á 2001-2003.

Ísak Bergmann hefur nú þegar leikið með aðalliði félagsins en samkvæmt Aftonbladet má búast við því að Ísak verði í stærra hlutverki á tímabilinu sem er framundan.

„Efnilegasti leikmaðurinnn í sænsku úrvalsdeildinni síðan Kim Kallström kom fram á sjónarsviðið,“ segir meðal annars í umsögn Aftonbladet.