Forstjóri Hrafnistu á batavegi eftir erfið veikindi – „Starfsfólk Landspítala á kærar þakkir skildar“


Skagamaðurinn Pétur Magnússon, forstjóri hjúkrunarheimilisins Hrafnistu, hefur á undanförnum dögum kynnt sér heilbrigðiskerfið af eigin raun. Í pistil sem Pétur skrifaði á fésbókarsíðu sína segir hann frá því sem á daga hans hefur drifið að undanförnu – en Pétur gaf Skagafréttum góðfúslegt leyfi til að birta pistilinn.

Að kynna sér heilbrigðiskerfið að eigin raun 🙂

Síðustu 8 daga hef ég dvalið í góðu yfirlæti á okkar ástkæra Landspítala. Reyndar ekki út af Covid, sem ég hef þegar verið prófaður fyrir tvisvar (og verið neikvæður), heldur ýmsu öðru.

Fyrir nokkru ákvað líkaminn að æskilegt væri að ég kynnti mér heilbrigðiskerfið frá fyrstu hendi sem notandi enda lítið notað það hingað til. Í fyrsta skipti á ævinni var ég greindur með lungnabólgu.

Þó ég væri stiltur heima var lungnabólgan, sem var af óþekktum uppruna, ekkert að svara hefðbundinni meðferð svo ákveðið að leggja mig inn á spítala. Þar fékk ég breiðvirk sýklalyf í æð og allt virtist ganga vel.

Eftir að hafa verið á spítalanum í tæpan sólarhring byrjuðu fæturnir á mér að mynda kraftmikla blóðtappa sem skutust í lungun og vægast sagt trufluðu starfsemina þar.

Tilfinningin er eins og mjög kröftug háfjallaveiki sem líkist helst því að settur hafi verið vörubíll ofan á brjóstkassan og ég þurft hreinlega að toga með höndunum til að aðstoða í hverjum andadrætti.

Þessi blóðtappaframleiðsla var víst gerð með stæl eins og margt annað sem ég geri.

Mér fróðara fólk segir að líklega hafi það viljað mér til lífs að hafa verið einmitt staddur á Landspítalanum þegar þetta gerðist því fljótlega fylltist stofan mín af læknum, hjúkrunarfræðingum og fleirum (10-20 manns) sem náðu að finna út úr þessu í tíma og gefa mér rétt lyf.

Eftir þetta var ég á gjörgæsludeildum í 4 daga þar sem ég þurfti enn frekari blóðþynnandi meðferð og sýklalyf auk þess sem tappa þurfti af mér sýktum vökva sem var afleiðing lungnabólgunnar.

En nú er þetta allt á réttri leið og er að verða nokkuð sprækur 🙂

Hef svosem ekki verið að upplifa þetta neitt sem rosaleg veikindi en þar sem fólk er nú ekki lengur en þarf á spítala, segir það sjálfsagt sína sögu.

Allt stefnir í að ég fari heim á morgun þó ennþá sé ekkert búið að finna út um orsakir lungnabólgunnar né myndunnar blóðtappanna.

Helsta ástæðan er kannski sú að ég fór í kókbindindi fyrir nokkrum vikum, en ég hef nú svindlað á því síðstu daga svo ég ætti að vera að lagast 😉

Annars þakka ég bara góðar kveðjur sem mér hafa verið að berast – gaman og hressandi að fá þær 🙂

Svo á auðvitað starfsfólk Landspítala kærar þakkir skildar en ég er búinn að prófa að fara í sjúkrabíl í fyrsta skipti á ævinni og liggja samtals á sex deildum á Hringbraut og Fossvogi þessa daga, fyrir utan þær deildir sem ég hef heimsótt til rannsókna.

Það má því með sanni segja að maður sér búinn að kynna sér heilbrigðiskerfið af eign raun 🙂