Bæjarstjórn skorar á ráðherra að koma upp blóðskimunarþjónustu á Akranesi


Blóðskilunarvélar eru lífsnauðsynlegar fyrir þá sem glíma m.a. við nýrnasjúkdóma. Á Akranesi er ekki slík þjónusta í boði þrátt fyrir mikla þörf. Blóðskilun heitir það þegar blóðið er hreinsað með aðstoð
gervinýra. Nánar hér.

Bæjarstjórn Akraness hefur allt frá árinu 2017 þrýst á að heilbrigðisyfirvöld setji upp slíka þjónustu á HVE á Akranesi – og á fundi sínum í gær var málið tekið aftur upp.

Á fundi sínum í gær vakti Bæjarstjórn Akraness athygli heilbrigðisráðherra á þeirri staðreynd að jafnræðis sé ekki gætt í heilbrigðisþjónustu við íbúa á þjónustusvæði HVE sem þurfa að fara í blóðskilun til höfuðborgarsvæðisins og íbúa sem njóta þjónustu heilbrigðisstofnana á stór-Reykjavíkursvæðinu og geta sótt þjónustuna í nærumhverfi sínu.

Sjúklingar í þessari stöðu á Akranesi og nágrenni eru háðir aðstoð sinna nánustu eða e.a. frá sveitarfélaginu því meðferð af þessum toga, sem er þeim lífsnauðsynleg, getur tekið allt að 6 til 7 klst. í senn í nokkur skipti í viku hverri og eiga viðkomandi eðli máls samkvæmt ekki kost á að nýta almenningssamgöngur eða keyra eigin bíl.

Allar forsendur eru til staðar við HVE á Akranesi til að taka upp þessa þjónustu og sem kunnugt er býr stofnunin yfir miklum mannauð og vilja og hefur veitt öfluga heilbrigðisþjónustu á öllu Vesturlandi. HVE er tilbúið að taka við auknum verkefnum og áskorunum eins og raun ber vitni með tilvísun í samþykkt heilbrigðisráðherra frá því í október 2019 um að gera sjúkrahúsið á Akranesi að miðstöð liðskiptaaðgerða á mjöðmum og hnjám.



Þessi bókun var samþykkt samhljóða 9:0.