„Heima með Helga“ – heldur áfram í Hlégarði í kvöld – Skagamenn í stóru hlutverki


Skagamaðurinn Ísólfur Haraldsson sér um að skemmta landsmönnum með því að framkvæma skemmtilegar hugmyndir sem hann fær.

Í kvöld verður söngvarinn Helgi Björnsson með tónleika í Hlégarði í Mosfellsbæ – líkt og hann gerði um síðustu helgi – en „Heima með Helga“ tónleikarnir slógu svo sannarlega í gegn í sjónvarpi Símans.

Ísólfur segir að hann hafi að undanförnu unnið með Helga Björnssyni að tónleikum sem heita „Sumarhátíð Helga“ – sem fram eiga að fara í Háskólabíó. En vegna breyttra aðstæðna í kjölfar Covid-19 hafi þessi hugmynd komið upp hjá þeim félögum.

„Við höfðum samband við sjónvarp Símans – sem ákvað strax að vera með okkur í þessu. Upphaflega hugmyndin var að halda þessa tónleika heima hjá Helga Björnssyni. Og hafa þetta sem næst ástandinu sem dvið erum öll að upplifa, og reyna að hressa aðeins upp á íslensku þjóðina. Heima hjá Helga gátum við ekki uppfyllt 2 metra regluna hans Víðis. Þá ákváðum við að fara með þetta í Hlégarð sem er rekið af okkur félögunum í Gamla Kaufélaginu. Það verður því fjör á ný í Hlégarði með Helga Björns og gestum,“ segir Ísólfur við Skagafréttir.

Eins og áður segir verða tónleikarnir í sjónvarpi Símans, en einnig á útvarpsstöðinni K100 og mbl.is.