„Það er brjálað að gera“ – Márus og Finnur standa vaktina í Bresabúð


„Það er brjálað að gera hjá okkur,“ segir Márus Líndal Hjartarson annar af eigendum Bresabúðar við Kalmansvelli á Akranesi.

Finnur Þórðarson starfsmaður verslunarinnar og Márus standa vaktina í Bresabúð flesta daga og þeir hafa svo sannarlega haft í nógu að snúast á undanförnum vikum.

„Febrúar var líka mjög góður mánuður hvað varðar sölu og aðsókn, það virðast margir hafa tíma til að framkvæma eitthvað heima hjá sér þessa dagana. Það hefur mest verið að gera í málningarvörunum en annað kemur líka sterkt inn,“ segir Finnur.

Bresabúð var opnuð í ágúst árið 2016 við Kalmansvelli. Karvel Karvelsson og Márus Líndal eru eigendurnir. Í verslunni er lögð mest áhersla á málningavörur, og einnig vörur sem þarf fyrir pípu – og raflagnir.

„Verktakar og iðnaðarmenn eru stærsti hópurinn sem verslar við okkur en það hefur aukist mikið að „fólk af götunni“ komi hingað og versli. Við þjónustum einnig stóriðjuna á Grundartanga, Elkem og Norðurál. Þar er alltaf nóg að gera,“ segir Márus.

Vöruúrvalið hefur aukist hægt og rólega í Bresabúð frá því að verslunin var opnuð. Márus Líndal segir að mest sé að gera yfir sumartímann.

„Þegar sólin hækkar á lofti þá er mest að gera. Það fara margir í málningarvinna yfir sumartímann og maí til ágúst eru því stærstu mánuðirnir hjá okkur. En eins og áður segir hafa febrúar og mars verið risastórir í sögulegu samhengi,“ bætir Finnur við.

Gengur vel að halda uppi „aga“ vegna Covid-19

Ástandið í þjóðfélaginu vegna Covid-19 hefur ekki farið framhjá neinum og segir Márus að það hafi gengið vel að halda uppi „aga“ í Bresabúð varðandi þær reglur sem Almannavarnir hafa sett varðandi veirufaraldursins.

„Frá því að Covid-19 veiran kom upp hefur í raun verið brjálað að gera hjá okkur. Við erum samt sem áður ánægðir með hvernig viðskiptavinir okkar nálgast þetta verkefni. Það eru allir duglegir að spritta sig áður en þeir koma inn í verslunina, nota hanska, og halda 2 metra fjarlægð,“ bætir Márus við.

Eins og áður segir er Márus Líndal eigandi Bresabúðar ásamt Karvel Karvelssyni. Sigmar Stefnisson starfar um helgar í verslunni ásamt Karvel og bókhaldið er í öruggum höndum hjá „Dísu“ eða Finndísi Ólafsdóttur.

Spekingahornið nýtur vinsælda

Márus segir að markmiðið hafi verið frá upphafi að taka vel á móti iðnaðarmönnum og verktökum. Og er „spekingahornið“ hluti af því að búa til umhverfi sem er gott að vera í. „Við viljum að fólki líði vel hérna hjá okkur. Spekingahornið er mikið notað af iðnaðarmönnum og öðrum gestum. Þar er spjallað um allt á milli himins og jarðar, en mest um fótbolta.“

Finnur segir að konur séu stór hluti viðskiptavina Bresabúðar og þá sérstaklega í málningarvörunum. „Konurnar spá mikið í hluti sem tengjast málningunni – og þeim fer alltaf fjölgandi í viðskiptavinahópnum.“

En afhverju nafnið Bresabúð?

„Nafnið er vísun í írskan menningararf okkar á Akranesi. Búð er einnig með sterka tilvísun í verslunasöguna hér Akranesi, Einarsbúð, Axelsbúð og nú Bresabúð. Þetta minnir á gamla tíma og það var markmiðið með valinu á nafninu,“ segir Márus Líndal að lokum.