Hávaxni miðherjinn úr ÍA fékk fyrsta rauða spjaldið á Íslandi


Jón Gunnlaugsson, fyrrum leikmaður ÍA og einn helsti sagnaritari knattspyrnusögunnar á Akranesi, skrifaði nýjan kafla í knattspyrnusöguna á Íslandi í byrjun júní árið 1972.

Árið 1972 var tekin upp sú regla að dómarar gátu rekið leikmenn af velli – með því að draga upp rauða spjaldið.

Hinn hávaxni miðherji Skagamanna var sá fyrsti sem fékk rauða spjaldið í leik í efstu deild á Íslandi í knattspyrnu.

Jón segir í samtali við Skagafréttir að atvikið sé honum ekkert sérstaklega minnistætt en íþróttafréttamenn á þessum tíma voru ekki sáttir við rauða spjaldið hjá Skagamannum í leiknum gegn KR.

„Íþróttafréttamenn töldu að Óli P. Ólsen dómari leiksins hefði unnið kapphlaup dómarastéttarinnar um hver yrði fyrstur til að reka leikmann útaf með rautt spjald.

Það var vel hægt að réttlæta þennan dóm. Ég fékk gult spjald fyrir litlar sakir fyrr í leiknum. Og ég braut síðan aftur af mér og nú gegn Atla Þór Héðinssyni. Sumir sögðu að ég hefði sópað honum út á hlaupabrautina en það er langt frá sannleikanum. Ég fékk rauða spjaldið í kjölfarið – fyrstur allra á Íslandi. Ég fékk annars mjög fá spjöld á ferlinum og aðeins eitt rautt til viðbótar ári síðar. Það fékk ég í búningsklefanum eftir leik í Keflavík. Það er eitt frægasta rauða spjald sögunnar,“ segir Jón en fjallað verður um það spjald í öðrum pistli hér á skagafrettir.is

Hann rifjaði einnig upp sögu sem átti sér stað fyrir um áratug þegar hann hitti dómarann Óla P. Ólsen af tilviljun á Egilsstöðum.

„Við hjónin vorum á ferðalagi um landið og vorum á hóteli á Egilsstöðum að borða. Ég sá að Óli P. Ólsen var þar staddur í matsalnum ásamt enskri vinkonu sinni. Hann hefur líklega verið að segja henni frá samskiptum okkar í þessum leik.

Konan kom síðan að borðinu okkar og spurði hvort ég væri enn óánægður með Óla og bæri hatur í hans garð. Ég gat ekki annað en skellt upp úr og hlegið – enda bar ég engan kala til Óla, sem var góður dómari og prýðismaður.

Hér fyrir neðan má sjá umfjöllun dagblaðsins Þjóðviljans um leikinn þar sem að blaðamaðurinn var langt frá því að vera sáttur við ákvörðun dómarans að reka Jón Gunnlaugsson af velli með rautt spjald.

Eins og sjá má voru Skageamenn flottir í tauinu þegar þeir fóru í leiki á sunnudögum.