„Ég hef nú alveg átt það til að gleyma hinu og þessu hér og þar, en í dag tók steininn úr,“ segir Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar í skemmtilegum pistli sínum á fésbókinni.
„Heiða“ hefur í mörg horn að líta um þessar mundir þar sem að ferðaþjónustufyrirtæki landsins glíma við erfiða stöðu vegna Covid-19 ástandsins.
En hér er skemmtisaga dagsins í boði Bjarnheiðar Hallsdóttur – sem gaf Skagafréttum góðfúslegt leyfi til birtingar.
Ég hef nú alveg átt það til að gleyma hinu og þessu hér og þar, en í dag tók steininn úr. Ég fór í verslunarferð á Akranesi, meðal annars í Krónuna. Þegar ég kom út úr Krónunni, datt mér hug að kíkja í Eymundson þar við hliðina og stillti ég innkaupakerrunni upp í skoti fyrir utan bókabúðina. Þar dvaldi ég í góða stund, keypti bók og ók síðan sem leið lá í Kallabakarí. Þaðan fór ég svo heim og fékk mér kaffi og las blöðin í mestu makindum. Það var ekki fyrr ég ætlaði að fá mér nammi þremur korterum síðar, að ég áttaði mig á að ég hafði steingleymt kerrunni með öllum vörunum úti í bæ. En auðvitað var allt á sínum stað þegar ég kom svo og tók vörurnar svo lítið bæri á, enda upp til hópa heiðvirt fólk á Akranesi. Ég kenni kórónuveirunni um þetta allt og já, ég veit að það er aðallega gos og nammi í pokanum.😉