HBH á Akranesi fær risaverkefni fyrir Landsímareitshótelið


Í gær var verksamningur gerður um smíði allra innihurða fyrir Landsímareitshótelið. Fyrirtækið HBH Byggir efh, sem er með verkstæði við Hafnarbraut 9 á Akranesi, fékk verkefnið sem er stórt í sniðum.

Um er að ræða smíði á sjötta hundrað mjög vandaðra hótelhurða – sem standast allar kröfur sem Hilton hótelkeðjan setur.

Skagamaðurinn Samúel Guðmundsson, er verkefnisstjóri verksins, en hann er einnig formaður íþróttafélagsins Hauka í Hafnafirði. Samúel greindi frá þessum samningi á fésbókarsíðu sinni. Þar skrifar Samúel m.a.

„Ánægjulegt að þetta stóra verkefni vinnist á mínum gamla heimavelli á Skaga í stað þess að vinnast erlendist. Velgert hjá mínum verkaupa, Lindarvatni, að flytja verkefnið heim á þessum erfiðu tímum þegar allir þurfa að standa saman um að vernda störfin hér á landi.“

Fyrirtækið THG Arkitektar sem er í eigu Samúels og Freys Frostasonar koma að þessu verkefni. Tæknimenn frá THG Arkitektar sjá um eftirlit framkvæmda og Freyr er aðalhönnuður byggingarinnar. Hjá THG Arkitektar starfa um 10 arkitektar og tæknimenn við þetta verkefni.