Vel á annað þúsund fylgdust með útsendingu frá Akraneskirkju


Helgistund sem fram fór á Páskadag í Akraneskirkju gæti verið fjölmennasta samkoman sem fram hefur farið á vegum Akraneskirkju.

Athöfnin var með óhefðbundnum hætti vegna samkomubannsins sem nú er í gild vegna Covid-19 veirunnar, Kirkjubekkirnir voru því tómir en samt sem áður voru mörg hundruð sem fylgdust með.

Helgistundin var tekin upp á myndband og sýnd á fésbókarsíðu Akraneskirkju þar sem að prestarnir Sr. Þráinn Haraldsson og Sr. Þóra Björg Sigurðardóttir predikuðu.

Búið var að taka upp söng félaga úr Kór Akraneskirkju þar sem að Sveinn Arnar Sæmundsson organisti stjórnaði. Söngatriðunum var síðan skeytt saman við predikun prestanna í útsendingunni á Páskadag.

Snemma í dag, mánudaginn 13. apríl, höfðu um 1.700 skoðað útsendinguna frá Akraneskirkju. Það er án efa fjölmennasta „athöfn“ sem fram hefur farið í Akraneskirkju.

Kirkjan tekur um 180 manns með góðu móti í sæti en þann 23. ágúst árið 1896 er talið að um 450 manns hafi verið á sama tíma í Akraneskirkju. Sagt er frá því með eftirfarandi hætti á vef Akraneskirkju.

Akraneskirkja var vígð þann 23. ágúst árið 1896. Veður var hið versta þennan dag, feikna útsynningur og hvassviðri af suðvestri og komst biskup Íslands, Hallgrímur Sveinsson, ekki yfir flóann til að annast vígsluna. Sóknarpresturinn, sr. Jón Sveinsson, vígði kirkjuna í umboði biskups. Kirkjan var þéttsetin og gestir um 450 talsins. Ekki er víst að kirkjan hafi rúmað allan þennan fjölda í sætum, en tæpast hefur nokkurn kirkjugest fýst þess að standa undir kirkjuvegg við þær veðuraðstæður sem voru þennan dag.Þetta var þó hátíðleg stund og öllum bar saman um að hin nýja kirkja væri glæsilegt guðshús.