Stefnt á að byggja leiguíbúðir á Akranesi fyrir 1,7 milljarða kr.


Bæjarráð Akraness samþykkti á síðasta fundi sínum tillögur skipulags – og umhverfissráðs vegna tveggja byggingaframkvæmda á almennum íbúðum.

Verkefnin eru metin samtals á rúmlega 1,7 milljarða kr. en eru háð því að stofnframlagsúthlutun komi frá Húsnæðis – og mannvirkjastofnun.

Fyrra verkefnið er í samstarfi við Bjarg íbúðafélag hses. á lóðunum nr. 11 og 17 við Asparskóga.

Síðara verkefnið er í samstarfi við Leigufélag aldraðra hses. um uppbyggingu á leiguíbúðum á lóð við Dalbraut 6.

Hér fyrir neðan má sjá bókun úr fundargerð vegna málsins.
Smelltu hér fyrir alla fundargerðina.Bæjarráð samþykkir samstarfsverkefni við Bjarg Íbúðafélag hses. vegna uppbyggingu almennra íbúða samkvæmt lögum nr. 52/2016 á Asparskógum nr. 11. og nr. 17. Heildarstofnvirði umsóknar Bjargs til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar er kr. 646.825.654 og stofnframlag Akraneskaupstaðar er 12% af þeirri fjárhæð eða kr. 77.619.078. Gatnagerðar- og þjónustugjöld Akraneskaupstaðar vegna úthlutunar lóðanna og uppbyggingarinnar eru kr. 41.228.440 og beint fjárframlag úr sjóð kr. 36.390.638. Bæjarráð samþykkir að gera breytingar á fjárfestinga- og framkvæmdaáætlun Akraneskaupstaðar sem þessu nemur og úthlutun lóðanna við Asparskóga nr. 11 og nr. 17 til verkefnisins með þeim fyrirvara að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun samþykki úthlutun stofnframlags til verkefnanna.

Bæjarráð samþykkir samstarfsverkefni við Leigufélag aldraðra hses. vegna uppbyggingu almennra íbúða samkvæmt lögum nr. 52/2016 á byggingarlóðinni við Dalbraut nr. 6. Heildarstofnvirði umsóknar Leigufélags aldraðra til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar er kr. 1.100.639.746 og stofnframlag Akraneskaupstaðar er 12% af þeirri fjárhæð eða kr. 132.076.769. Gatnagerðar- og þjónustugjöld Akraneskaupstaðar vegna úthlutunar lóðanna og uppbyggingarinnar eru sem nemur stofnframlagi Akraneskaupstaðar.

Bæjarráð samþykkir að gera breytingar á fjárfestinga- og framkvæmdaáætlun Akraneskaupstaðar sem þessu nemur og úthlutun lóðarinnar Dalbraut nr. 6 til verkefnisins með þeim fyrirvara að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun samþykki úthlutun stofnframlags til verkefnisins.