„Hef stefnt að þessu frá því ég var tólf ára“ – Draumar Brynhildar eru að rætast


„Ég hef stefnt að þessu frá því ég var tólf ára,“ segir Brynhildur Traustadóttir afrekskona í sundi við Skagafréttir. Brynhildur hefur skrifað undir samning við bandaríska háskólaliðið University of Indianapolis og mun hún keppa fyrir hönd skólaliðsins samhliða háskólanámi frá og með haustinu 2020.

University of Indianapolis er einkaskóli í Indiana fylki. Á bilinu 4000-5000 nemendur eru í skólanum sem telst vera fámennur á bandarískan mælikvarða.

Brynhildur, sem er fædd árið 2001, hefur eins og áður segir verið með hugann við þetta verkefni í mörg ár og fylgja í fótspor bróður síns, Hrafns Traustasonar.

„Ég sá þetta fyrir mér þegar ég var 12 ára að fara til Bandaríkjana í háskóla, og keppa í sundi fyrir skóla. Hrafn bróðir minn fór þessa leið sem sundmaður árið 2012 þegar hann fór til Oakland University í Bandaríkjunum. Hann útskrifaðist þaðan árið 2016 með BS í efnafræði og fór síðan í framhaldsnám í University of Notre Dame. Hann er enn í Notre Dame en hann hætti keppnissundinu árið 2016.“

Brynhildur hefur undirbúið sig vel fyrir þetta ferli að sækja um hjá háskólum og koma sér á framfæri.

„Árið 2018 byrjaði ég að gera lista fyrir þá skóla sem komu til greina hjá mér. Í janúar 2019 fór ég að senda út bréf á þjálfara. Í kjölfarið fékk ég nokkur tilboð. Fjórir skólar voru álitlegir að mínu mati. Á haustönn 2019 var í samskiptum við þessa fjóra skóla. Endanlega ákvörðun tók ég í desember á síðasta ári. Vegna Covid-19 var undirskriftinni frestað fram í apríl en ég átti að skrifa undir eftir TOEFL prófið í mars s.l.

Brynhildur hefur verið í fremstu röð á landsvísu á Íslandi á undanförnum misserum en hún fór snemma að æfa sundíþróttina. „Ég fór þessa venjulegu leið, ungbarnasund, sundskóli og byrjaði síðan að æfa hjá Sundfélagi Akraness þegar ég var 6 ára.“

Keppnislið University of Indianapolis er í 2. deild NCAA deildarinnar í bandaríska íþróttalífinu en liðið er að sögn Brynhildar sterkt.

„Ég tel að það séu fleiri tækifæri fyrir mig sem sundmann að vera í 2. deild. Það ætti að gefa aukna möguleika á að komast alla leið inn á lokamót NCAA. Það er spennandi tilhugsun að fá tækifæri til að stunda íþróttina sem ég elska og stunda samhliða krefjandi háskólanám.“

Fréttin heldur áfram hér fyrir neðan:



Stærðfræði verður aðalfagið hjá sundkonunni snjöllu í háskólanáminu.

„Helstu væntingar mínar varðandi þetta skref er að bæta mig sem sundmaður og ná mér í góða menntun. Eins og staðan er núna er ég skráð í stærðfræði. Einnig er ég mjög spennt fyrir því að vera partur af stóru liði.
Planið er að fara frá Íslandi í kringum 20 ágúst og ég vona að Covid-19 ástandið hafi ekki áhrif á það.“

Brynhildur hefur fengið góða aðstoð við þetta ferli frá fjölskyldu sinni og þjálfara ÍA.

„Ég vil nota þetta tækifæri og þakka fyrir alla hjálpina sem ég hef fengið. Sérstaklega frá bróður mínum Hrafni sem fór í gegnum þetta sama ferli fyrir nokkrum árum og þjálfaranum mínum hjá ÍA, Kjell Wormdal. Og ég segir því bara, áfram ÍA!“

Kjell Wormdal og Brynhildur Traustadóttir.