Jón Gísli er eftirsóttur af liðum á Norðurlöndunum


Jón Gísli Ey­land Gísla­son, leikmaður ÍA , gæti þurft að rifja upp kunnáttu sína í einu Norðurlandamáli ef marka má þann áhuga sem lið í Skandinavíu hafa sýnt hinum unga og efnilega leikmanni.

Jón Gísli er fæddur árið 2002 og er hann frá Sauðárkróki. Hann gekk í raðir ÍA í byrjun ársins 2019. Hann hefur leikið vel með 2. flokk ÍA og komið við sögu í 10 leikjum með meistaraflokki.

Jón Gísli hefur verið fastamaður með yngri landsliðum Íslands að undanförnu. Alls hefur hann leikið 32 landsleiki með yngri landsliðum Íslands.

Í vetur varð Jón Gísli fyrir því að fá álagsbrot í fótinn og hefur hann verið frá vegna meiðsla. Þrátt fyrir það hafa erlend lið sýnt honum áhuga. Þetta kemur fram í viðtali við Jón Gísla á fotbolti.net.

Liðin eru bæði með miklar Skagatengingar. Start í Noregi sem leikur í efstu deild en þjálfari liðsins er Skagamaðurinn Jóhannes Harðarson. Hitt liðið sem hefur sýnt Jóni Gísla áhuga er Norrköping í Svíþjóð. Þar eru tveir ungir Skagamenn, Ísak Bergmann Jóhannesson og Oliver Stefánsson. Arnór Sigurðsson hóf atvinnumannaferilinn hjá Norrköping. Jón Gísli hefur tvívegis farið til Norrköping til reynslu og hann átti að fara til Start í byrjun þessa árs en ekkert varð af því vegna meiðsla.