Öflugur gönguhópur stundar holla líkamsrækt í hvaða veðri sem er á Akranesi


Að stunda göngu er af mörgum talin hollasta líkamsræktin. Ganga er í senn einföld og örugg og hana geta nær allir iðkað, sama á hvaða aldri.

Anna Bjarnadóttir, íþróttakennari, hefur á undanförum misserum stýrt öflugum gönguhópi eldri borgara á Akranesi. Þessi hópur lætur veðrið ekki stöðva sig í þvi að stunda göngu sem er af mörgum talin hollasta líkamsræktin.

Ganga er í senn einföld og örugg og hana geta nær allir iðkað, sama á hvaða aldri. Ef gengið er rösklega er auk þess hægt að ná sama árangri í þoli og með hlaupum, hjólreiðum eða þolfimi – án þess að álagið valdi meiðslum.

Kostir þess að stunda göngu

Þú ert ekki bundin/n við að fara út að ganga á ákveðnum tíma. Þú getur þess vegna þjálfað þig í göngu að nóttu til ef það hentar.

Þú getur þjálfað á mismunandi stöðum, allt eftir því hvað hentar þér og hugur segir til um hverju sinni.

Einu tækin sem þarf eru góðir skór. Ganga er því ódýrasta líkamsrækt sem völ er á.

Þú getur þjálfað utandyra, sem er ómetanlegt. Flestir eru allt of mikið inni en það er nauðsynlegt að fara út og anda að sér fersku, súrefnisríku lofti reglulega. Hafðu í huga að þú býrð á Íslandi; láttu veðrið ekki halda aftur af þér heldur klæddu þig samkvæmt því.

Aukakílóin, ef einhver eru, fjúka burt. Ekki segjast hafa þrautreynt allar megrunaraðferðir eða kaupa enn eina ,,töfralausnina“ ef þú hefur ekki prófað að fara í röska göngu þrisvar eða oftar í viku í einn mánuð.

Þú styrkist líkamlega og dregur stórlega úr líkunum á að fá ýmsa sjúkdóma, s.s. hjarta- og æðasjúkdóma, háþrýsting, beinþynningu og ýmis stoðkerfisvandamál. Ganga, eins og önnur hreyfing, getur einnig bætt marga þessa sjúkdóma

Þú sefur betur og bætir andlega líðan. Um leið ertu að vinna gegn kvíða, streitu og þunglyndi.

Hver og einn getur þjálfað göngu á sínum forsendum og sett sér markmið við hæfi. Skynsamlegt er að byrja á að fara í göngutúr t.d. þrisvar sinnum í viku í nokkrar vikur og lengja gönguferðirnar og fjölga þeim smátt og smátt. Þær verða að ómissandi vana að skömmum tíma liðnum og eftir því sem gönguþolið eykst því meira nýtur maður göngunnar.

Heimild Landlæknisembættið.