Gleðifréttir fyrir börn – íþróttastarf og skólahald með eðlilegum hætti frá og með 4. maí


Öll starfsemi sem snýr að börnum á að verða aftur með eðlilegum hætti eftir 4. maí. Þetta á við um leik- og grunnskóla, og íþrótta- og tómstundastarf fyrir börn.

Þetta segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra sem kynnti auglýsinguna um tilslökun á samkomubanni á ríkisstjórnarfundi í morgun.

Þetta kemur fram á vef RÚV,

Áður var ákveðið að íþróttastarf utandyra væri heimilt.

„Með þessari breytingu er verið að opna algjörlega fyrir eðlilegt skólastarf í grunn- og leikskólum. Það þýðir að tveggja metra reglan og fjarlægð milli fólks, það er ekki hægt að uppfylla þegar börn eru annars vegar. En það gildir um fullorðna sem eru með; kennarana og svo framvegis. Allir þurfa að gæta að því hér eftir sem hingað til og þá 50 manna hámark í sama rými,“ segir Svandís.

„Sama gildir þá um íþrótta og tómstundastarf fyrir börn. Við erum þá að sjá þau meginþáttaskil 4. maí að starfsemi sem snýst um börn að hún verði með eðlilegum hætti,“ segir Svandís.

Á blaðamannafundinum um slökun á samkomubanni í síðustu viku var talað um að íþróttastarf barna á leik- og grunnskólaaldri yrði leyft utandyra. Nú á að heimila allt íþróttastarf barna bæði innan og utandyra.