Stefnt er að því að keppnishald á vegum Knattspyrnusambands Íslands hefjist í júní. Þetta kemur fram á vef KSÍ.
KSÍ hefur ákveðið að hefja undirbúning á því að keppni í mótum sumarsins geti hafist í júní, með þeim fyrirvara að staðan í þjóðfélaginu verði þá orðin þannig að Almannavarnir geti heimilað leikjum að fara fram.

Keppni í Pepsi Max deild karla þar sem að ÍA er á meðal liða hæfist 14. júní, næst efsta deild kvenna þar sem að ÍA er með lið hefst á tímabilinu 18.-20. júní. Keppni í yngri flokkum hefst samkvæmt þessari áætlun 5. júní.
Mjólkurbikarkeppni KSÍ hefst einnig 5. júní samkvæmt þessari áætlun,
Í undirbúningnum er miðað við neðangreindar forsendur.
Keppni meistaraflokks
- Mjólkurbikar karla og kvenna hefjist um 5. júní.
- Pepsi Max deild karla hefjist um 14. júní.
- Pepsi Max deild kvenna hefjist um 16. júní.
- Önnur mót meistaraflokka hefjist um 18.-20. júní
Mót yngri flokka
- Gert er ráð fyrir að mót yngri flokka hefjist um 5. júní.
Almennt um leikjafyrirkomulag
Í öllum tilfellum þarf að lengja mótin inn í haustið og ræðst það af því hve margir leikir verða óleiknir þegar mótin fara af stað. Samt sem áður er ljóst að leika þarf þéttar. Ferðalög milli landshluta í miðri viku geta því aukist frá því sem áætlað var.
Eins og segir hér að ofan þá miðast ofangreint upphaf móta við að staðan í þjóðfélaginu verði þannig að Almannavarnir geti heimilað leikjum að fara fram. KSÍ hvetur því alla til að fara varlega og hlýða þeim fyrirmælum sem Almannavarnir hafa gefið út.