Stuðningslið KFÍA hefur safnað umtalsverðu framlagi fyrir félagið


Á undanförnum dögum og vikum hefur stuðningslið Knattspyrnufélags ÍA skorað á hvort annað að styðja við bakið á félaginu fjárhagslega.

Áskorunin hefur farið fram í gegnum samfélagsmiðla og varla farið framhjá nokkrum manni. Knattspyrnufélag Akraness sendi í morgun frá sér þakkarbréf til stuðningsliðsins – og hefur söfnunin skilað umtalsverðu framlagi í rekstur félagsins á þessum erfiðu tímum. Hér fyrir neðan er þakkarskeytið frá KFÍA.

Takk fyrir einstakan stuðning

Stundum er sagt, það er ekkert félag án félagsmanna. Þessi fullyrðing á svo sannanlega við Knattspyrnufélag ÍA.

Á síðustu dögum hafa stuðningsmenn ÍA staðið að leik á facebook þar sem þeir skora á vini og vandamenn að styðja félagsstarfið.

Nú þegar hefur fjöldinn allur brugðist við kalli og lagt Knattspyrnufélagi ÍA til umtalsvert framlag í reksturinn.

Fjármagn sem getur skipt sköpum í rekstri félagsins og enn eru að berast framlög.


Takk og aftur takk. Áfram ÍA