Áskorun eru sjónvarpsþættir sem Skagamaðurinn Gunnlaugur Jónsson stýrir og eru þættirnir sýndir á Sjónvarp Símans. Óhætt er að segja að fyrsti þátturinn af alls fimm hafi vakið athygli og fengið góða dóma.
Gunnlaugur beinir kastljósinu að öðrum Skagamanni í öðrum þætti sem sýndur verður á fimmtudaginn, eða Sumardaginn fyrsta.
Þar er rætt við Inga Þór Jónsson, sem var á sínum tíma í fremstu röð í sundíþróttinni, hér á landi og í alþjóðlegum samanburði.
Ingi Þór rifjar upp þær áskoranir sem hann stóð frammi fyrir sem samkynhneigður íþróttamaður á sínum tíma.
„Sko á þessum tíma þegar maður er að breytast, þroskast, það er eitthvað þarna sem að segir mér strax að þetta er eitthvað sem ekki er talað um,” segir Ingi Þór.
Á þeim tíma voru ekki til neinar fyrirmyndir en Ingi Þór segir frá viðtali við Hörð Torfason í Samúel, sem hann stalst til að lesa mörgum árum síðar, þegar enginn sá til. Hörður var hans fyrsta fyrirmynd. Hann heldur svo áfram að tala um áhrif þess að vera ungur samkynhneigður maður á Akranesi á þessum tíma.
„Þetta var eiginlega bara lífstíðarfangelsi, þetta var dauðadómur. Líkamlega útrásin, ég fæ hana í sundinu. Ég gat alltaf haldið þessu niðri, haldið þessu frá,” segir Ingi Þór og dæsir.
Hér fyrir neðan má sjá stiklu úr þættinum sem sýndur verður á fimmtudaginn.