Fara þarf rúma öld aftur í tímann til þess að finna aðstæður sem bera má að einhverju leyti saman við þær sem ríkja í þjóðfélaginu um þessar mundir vegna Covid-19, en þá geisaði mannskæðasta farsótt 20. aldarinnar sem nefnd var spænska veikin. Þetta kemur fram á vef Hagstofu Íslands.
Áætlað er að farsóttin hafi kostað 20-50 milljónir manna lífið á heimsvísu og þar af nálægt 500 manns hér á landi. Læknishéraðið Skipaskagi eða Akranes og nágrenni, fór illa út úr farsóttinni árið 1918 og alls létust 28 einstaklingar af völdum veikinnar á Skipaskaga.
Spænska veikin barst til Íslands með þremur skipum sem komu erlendis frá og er gjarnan miðað við 19. október 1918 í þeim efnum þegar eitt þeirra lagðist að bryggju í Reykjavík. Breiddust veikindin hratt út samkvæmt sögulegum heimildum með þeim afleiðingum að stór hluti Reykvíkinga lagðist í rúmið og megnið af atvinnustarfsemi í bænum lagðist af tímabundið.
Talið er að 6. nóvember hafi þriðjungur Reykvíkinga verið veikur og að þorri fólks á aldrinum 5-50 ára hafi sýkst. Rúmum mánuði eftir að veikin barst til landsins er áætlað að í Reykjavík einni hafi 258 manns, 116 karlar og 142 konur, verið dánir af völdum veikinnar.
Barst takmarkað út um landsbyggðina
Veikin barst einnig til Suðurnesja og undirlendis Suðurlands og sjóleiðis til nokkurra staða á Vestfjörðum. Hún barst ekki lengra landleiðis en í Borgarfjörð og staðnæmdist að talið er vegna sóttvarnaraðgerða á Holtavörðuheiði. Alls dóu um 230 manns utan Reykjavíkur.
Spænska veikin var yfirstaðin í desember 1918 og var einstök í flokki inflúensufaraldra fyrir það hve mannskæð hún var. Margt er á huldu um upptök veikinnar en almennt eru fræðimenn sammála um að þrátt fyrir nafnið hafi spænska veikin ekki átt upptök sín á Spáni.
Spænska veikin á Íslandi 1918 – Hagtíðindi