Uppsagnir hjá Vigni G. Jónssyni – 15 manns missa vinnuna


Fyrirtækið Vignir G. Jónsson ehf. á Akranesi sendi í dag frá sér fréttatilkynningu þess efnis að 15 manns hafi verið sagt upp störfum hjá fyrirtækinu.

Í ljósi samdráttar á sölu afurða vegna Covid faraldursins og loðnubrests síðustu tveggja ára, neyðist félagið að segja hluta starfsfólks síns upp störfum og fara í aðrar hagræðingaðgerðir á næstu vikum og mánuðum.

Alls missa 15 starfsmenn Vignis G. Jónssonar ehf. störf sín, en eftir uppsagnir starfa enn yfir 30 manns hjá félaginu.

Farsóttin og óvissar markaðsaðstæður hafa gert stöðu félagsins erfiða og þá munar um loðnubrest tvö ár í röð, en afurðir úr loðnuhrognum hefur verið ein helsta söluvara félagsins um langt árabil.

Þer okkar von að markaðsaðstæður breytist til hins betra og að loðna fari aftur að veiðast við landið, þannig félagið geti haldið áfram starfsemi sinni af sama krafti og áður,“ segir í tilkynningunni.

Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness segir í pistli á heimasíðu félagsins að uppsögnin sé risahögg fyrir atvinnulífið á Akranesi.

Þessi uppsögn hjá Vigni G. Jónssyni eru enn eitt risahöggið sem við Akurnesingar verðum fyrir hvað varðar atvinnumissi tengdum vinnslu sjávarafurða en formanni reiknast til að uppundir 300 fiskvinnslustörf hafi tapast í byggðarlaginu á síðustu tveimur og hálfa ári eða svo.

En eins og flestir vita töpuðust öll störf þegar HB Grandi ákvað að hætta vinnslu hér á Akranesi, á svipuðum tíma misstu allir vinnuna hjá hausaþurrkunarfyrirtækinu Laugafiski og fyrir tveimur mánuðum varð fiskvinnslufyrirtækið Ísfiskur gjaldþrota og núna ofan á þetta allt missa 35% starfsmanna hjá Vigni G. Jónssyni vinnuna,“ skrifar Vilhjálmur.