Formaður VLFA með rafræna ræðu til félagsmanna sinna á baráttudegi verkalýðsins


Ekkert verður af hátíðardagskrá verkalýðshreyfingarinnar í dag 1. maí vegna Covid-19 faraldursins og samkomubanns sem er í gildi. Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness sendir því félagsmönnum sínum rafrænar baráttukveðjur í pistli sem birtur var á vefsvæði VLFA og er hér fyrir neðan. Þetta er í fyrsta sinn frá árinu 1923 þar sem launafólk safnast ekki saman á 1. maí til að leggja áherslu á kröfur sínar.

Ágætu félagar

Ég vil byrja á að óska félagsmönnum mínum sem og öllu launafólki innilega til hamingju með baráttudag verkalýðsins á þessum fordæmalausu tímum.   En eins og allir vita þá hefur Kórónufaraldurinn gert það að verkum að öll hátíðardagskrá verkalýðshreyfingarinnar verið slegin af og er það gert eftir tilmælum frá Almannavörnum. Í fyrsta skipti síðan 1923 getur íslenskt launafólk ekki safnast saman á 1. maí til að leggja áherslu á kröfur sínar.

Það er óhætt að segja að Kórónufaraldurinn sé að valda okkur gríðarlegum búsifjum enda er áætlað að verðmætasköp þjóðarbúskapsins dragist saman um allt að 350 milljarða á þessu ári. Enda eru okkar aðalgjaldeyrisskapandi atvinnugreinar við það að stöðvast og nægir að nefna í því samhengi ferðaþjónustuna þar sem hún er við það að stöðvast vegna þess að flugsamgöngur hafa nánast lagst af um allan heim.

Það þarf ekkert að fara í grafgötur með þær afleiðingar sem Kórónufaraldurinn hefur haft á atvinnuöryggi á vinnumarkaðnum og það blasir við að almenni vinnumarkaðurinn á Íslandi er eins og blóðugur vígvöllur vegna Kórónufaraldursins, en á almenna vinnumarkaðnum starfa um 140 þúsund manns, en uppundir 60 þúsund starfa hjá ríki og sveitarfélögum.

Af þessum 140 þúsund manns sem starfa á almenna vinnumarkaðnum eru um 53 þúsund manns sem hafa nú þegar misst vinnuna að fullu eða hluta, sem er um 37% af þeim sem starfa á almenna vinnumarkaðnum, en sára fáir hafa hins vegar misst vinnuna hjá hinu opinbera.

Vilhjálmur Birgisson.

Það er eins og áður sagði áætlað að milli 300 og 350 milljarðar af verðmætasköpun þjóðarinnar muni þurrkast út á þessu ári með skelfilegum afleiðingum fyrir allt samfélagið hér á landi. Það er mikilvægt að almenningur átti sig á því að það eru atvinnugreinar á hinum almenna vinnumarkaði sem knýja samfélagið í heild sinni áfram með þeirri gjaldeyrissköpun sem á sér stað. En þær atvinnugreinar sem skapa mest af gjaldeyristekjum þjóðarinnar er ferðaþjónustan, iðnaðurinn og sjávarútvegurinn, en þessar greinar skapa um eða yfir 80% af öllum gjaldeyristekjum þjóðarinnar sem gerir það að verkum að við náum að reka okkar samfélag.

Núna þegar tannhjól þeirra fyrirtækja sem eru að skapa okkur mestu tekjurnar eru nánast við það að stöðvast, er ljóst að eitthvað verður að gera til að lágmarka skaðann og forða launafólki frá enn frekari uppsögnum.

Verkalýðsfélag Akraness hefur sagt að Lífskjarasamningurinn sem undirritaður var 3. apríl 2019 hafi verið einn sá besti sem gerður hefur verið fyrir íslenskt verkafólk. Samningurinn var byggður upp á því að samið var um krónutöluhækkanir í stað prósentuhækkana enda liggur fyrir að prósentuhækkanir eru aflgjafi misskiptingar, óréttlætis og gerir ekkert annað en að auka á ójöfnuð í íslensku samfélagi.

Lífskjarasamningurinn skilaði krónutöluhækkunum á lægstu launataxtanna sem ekki hafa áður sést hjá verkafólki en þær eru eftirfarandi:

  • 1. apríl 2019 – 17.000 kr.
  • 1. apríl 2020- 24.000 kr.
  • 1. janúar 2021 -24.000 kr.
  • 1. janúar 2020- 25.000 kr.

Auk þessa var samið um svokallaðan hagvaxtarauka sem ætti ef hagkerfið hefði verið í lagi að geta skilað enn hærri krónutölum til handa launafólki.

Lífskjarasamningurinn byggðist líka á því að ná niður verðbólgunni sem tókst, en þegar samningurinn var undirritaður 3. apríl 2019 nam verðbólgan 3,3% en 1. mars á þessu ári var verðbólgan komin niður í 2,1% og hafði því lækkað um 1,2%. Þessu til viðbótar var eitt af aðalmarkmiðum Lífskjarasamningsins að ná niður vaxtastiginu og það hefur svo sannarlega tekist einnig en stýrivextir Seðlabankans voru 3. apríl 4,5% en í dag nema þeir 1,75% og hafa lækkað um 2,75%. Vissulega hefur fjármálakerfið í heild sinni ekki skilað lækkun á stýrivöxtum að fullu til neytenda og fyrirtækja eins og gert var ráð fyrir. En vaxtastigið hefur samt lækkað umtalsvert enda hafa neytendur í miklu mæli verið að endurfjármagna sig og tekist þannig að minnka greiðslubyrði sína umtalsvert, allt eins og lagt var upp með við gerð Lífskjarasamningsins.

En nú eru svo sannarlega blikur á lofti og allur þessi ávinningur sem Lífskjarasamningurinn skilaði okkur í fullkomnu uppnámi enda 37% af fólki á almenna vinnumarkaðnum búið að missa vinnuna að fullu eða að hluta til. Fjölmörg fyrirtæki hafa orðið fyrir gríðarlegu tekjufalli og mörg hver misst alla sína innkomu og alls óvíst hvenær fer að rofa til vegna faraldursins.

Það er rétt að vekja athygli á því að endurskoðunarákvæði Lífskjarasamningsins munu fara fram og því miður eru töluverðar líkur á því að Samtök atvinnulífsins muni segja samningunum upp vegna þess ástands sem hefur teiknast upp á almenna vinnumarkaðnum í kjölfar Kórónufaraldursins.

Að þessu sögðu hefur formaður VLFA og formaður VR sagt að eitt helsta verkefni okkar núna sé að verja störfin, verja kaupmáttinn, verja heimilin og síðast en ekki síst að verja þær launahækkanir sem Lífskjarasamningurinn kvað á um. En núna um síðustu mánaðarmót hækkuðu launataxtar um 24.000 kr. og um næstu áramót eða eftir 8 mánuði eiga launataxtar að hækka aftur um 24.000 kr. eins og áður hefur komið fram.

Núna liggur fyrir ef marka má ummæli frá Samtökum atvinnulífsins sem birtust í Morgunblaðinu í síðasta mánuði að allt eins líklegt sé að SA muni segja samningum upp í september þegar endurskoðun á samningum fer fram og ef það gerist þá myndi launahækkunin sem á að koma til framkvæmda um næstu áramót falla niður.

Ef maður er bara alveg heiðarlegur þá eru umtalsverðar líkur á að Samtök atvinnulífsins muni segja samningum upp þegar endurskoðun á kjarasamningunum fer fram í haust og okkar fólk verður þá af þeirri launahækkun sem á að koma um næstu áramót.

Ég tel afar brýnt að unnið verði að því með öllum tiltækum ráðum að verja Lífskjarasamninginn eins og kostur er enda skiptir sköpum að launafólk fái sínar umsömdu launahækkanir sem kveðið er á í samningum.

Á samningafundi ASÍ lagði forseti ASÍ til að öllum launahækkunum á íslenskum vinnumarkaði yrði frestað sem hefði þýtt að launahækkun sem kom í apríl hefði ekki komið til framkvæmda. Þessu var ég og Ragnar Þór algerlega á móti þótt við værum sammála að það yrði að leggja eitthvað til svo hægt yrði að verja störfin og heimilin. Á þeirri forsendu lögðum við til að mótframlag atvinnurekenda yrði lækkað tímabundið úr 11,5% í 8% en þannig tækist okkur að verja launahækkanirnar. Þetta kom ekki til greina hjá forseta ASÍ og fleirum þrátt fyrir að hafa verið tilbúin að fresta launahækkunum. Það er undarlegt að um leið og talað er um aðkomu lífeyrissjóða þá bregst sumt fólk við með þeim hætti að ekki megi snerta þá undir nokkrum kringumstæðum, sé nánast heilagar kýr! Niðurstaðan um leið og búið var að leggja til mun skynsamari leið sem var að lækka frekar mótframlagið tímabundið en að fresta launahækkunum, var ákveðið að gera ekki neitt!

Ég tel það algjört glapræði að láta reka á reiðanum og gera eins og strútarnir stinga hausnum í sandinn þegar hætta steðjar að, því við getum ekki horft upp á að félagsmenn okkar séu í fullkomnu öryggisleysi hvað varðar atvinnuöryggi, lífsafkomu og hvort umsamdar launahækkanir skili sér vegna Kórónufaraldursins.

Eitt af aðalhlutverkum stéttarfélaga er að verja atvinnuöryggi og lífsafkomu okkar félagsmanna og við getum sýnt ábyrgð og lagt okkar lóð á vogaskálarnar með því að lækka tímabundið mótframlag í lífeyrissjóðina. Með því sláum við margar flugur í einu höggi eða eins og áður hefur komið fram varið fleiri störf, varið kaupmáttinn, varið launahækkanir og Lífskjarasamninginn, en að gera ekki neitt kallar á færri störf, minni kaupmátt, og okkar félagsmenn missa hugsanlega þær launahækkanir sem Lífskjarasamningurinn kvað á um.

Að sjálfsögðu yrðu stjórnvöld að koma að svona samkomulagi með því að setja þak á neysluvísitöluna tímabundið til að verja heimilin sem og standa við þau loforð sem gerð voru samhliða Lífskjarasamningum eins og hlutdeildarlánin og stíga þétt skref til afnáms verðtryggingar.

Að sjálfsögðu getur opinberi markaðurinn ekki setið hjá á meðan þessar hamfarir ganga yfir launafólk á hinum almenna vinnumarkaði, án þess að taka með einum eða öðrum hætti þátt í aðgerðum til að lágmarka skaða þjóðarbúsins. Allur þessi skellur verður ekki settur einvörðungu á herðar launafólks á almenna vinnumarkaðnum, svo mikið er víst.

Ágætu félagar.

Það sækir að mér kaldur hrollur yfir þeirri ömurlegu stöðu sem klárlega er að raungerast á hinum almenna vinnumarkaði vegna Kórónufaraldursins. En eins og flestir vita þá eru uppundir 60 þúsund manns búin að missa vinnuna að öllu leiti eða að hluta til.

Ég verð að lýsa yfir gríðarlegum áhyggjum með stöðu launafólks sem hafa og eru að missa lífsviðurværi sitt um þessar mundir. Afleiðingar af þeim hamförum sem eru að ganga yfir íslenskt launafólk um þessar mundir eru ekki enn farin að hafa full áhrif, en þær afleiðingar munu birtast hægt og bítandi á næstu vikum og mánuðum.

Í dag eru réttindi þeirra sem missa atvinnuna sína hjá sínum vinnuveitenda með þeim hætti að það fer fyrst á grunnatvinnuleysisbætur fyrstu 2 vikurnar og svo tekur tekjutengingin við í næstu 3 mánuðina.

Grunnatvinnuleysisbætur eru einungis 289.510 kr. fyrir 100% starfshlutfall, en eftir skatta nemur þessi upphæð einungis rétt rúmum 230.000 kr. Í þrjá mánuði eiga atvinnuleitendur rétt á tekjutengdum atvinnuleysisbótum, að hámarksfjárhæð kr. 440.970 á mánuði en eftir það detta þeir aftur niður á grunnbæturnar.

Það er því ljóst að ráðstöfunartekjufall þeirra sem eru að missa vinnuna verður umtalsvert, en það er ekki það eina sem ég hef áhyggjur, af því ég óttast innilega að verðlag muni hækka, hvað það verður mikið er erfitt að spá, en ljóst að það má reikna með það það geti orðið umtalsvert.

Ég velti því fyrir mér hvaða aðgerðapakki frá stjórnvöldum muni bíða launafólks sem er að verða fyrir gríðarlegum búsifjum vegna atvinnumissis, í ljósi þess að stjórnvöld hafa kynnt hvern aðgerðapakkann á fætur öðrum til bjargar atvinnulífinu, aðgerðapakkar sem mun kosta íslenska skattgreiðendur á bilinu 300 til 360 milljarða.

Verður aðgerðapakki launafólks og heimila kannski aftökupakki þar sem heimilin verða látin standa óvarin fyrir hugsanlegu verðbólguskoti og stjarnfræðilegri kaupmáttarskerðingu vegna hækkandi vöruverðs og tekjufalls, spyr sá sem ekki veit.

Að lokum þetta:

Á þessu sést að við erum nú stödd á afar erfiðum tímum, eins og áður sagði eru uppundir 60 þúsund manns er búinn að missa lífsviðurværi sitt að öllu leiti eða að hluta til og það er gjörsamlega ábyrgðarlaust fyrir verkalýðshreyfinguna að standa aðgerðalaus hjá þegar okkar félagsmenn engjast um vegna tekjumissi og atvinnuóöryggis. Við verðum að finna leiðir, leiðir sem tryggja að okkur takist að verja störfin, verja heimilin, verja kaupmáttinn og verja launahækkanir í Lífskjarasamningum!