Skagamaðurinn Jón Valur syngur eins og engill í nýja heimalandinu


„Ég syng svona af og til við sérstök tilefni, brúðkaup, jarðafarir í kirkjunni, og þetta hefur smátt og smátt spurst út. En á heildina litið eru þetta ekki margir viðburðir hjá mér í söngnum,“ segir Skagamaðurinn Jón Valur Ólafsson sem hefur vakið athygli í Noregi fyrir söng sinn. 

„Lagið sem ég syng að þessu sinni og var frumsýnt þann 1. maí heitir Vår beste dag. Þetta er norsk vísa sem er virtur textahöfundur og skáld samdi. Hann heitir Erik Bye og samdi hann þetta árið 2003. Vísan var upphaflega skrifuð til að heiðra Sygno, skólastofnun fyrir heyrnarlausa á 100 ára afmæli þeirra. Lagið hefur verið marg gefið út í allskonar útfærslum síðan. Þetta lag er mikið notað á hátíðisdögum eins og 1. maí eða á 17. maí sem er þjóðhátíðardagur Norðmanna,“ segir Jón Valur en hann hefur fest rætur í Noregi eftir langa búsetu þar í landi. 

„Það eru að verða 13 ár frá því ég flutti til Noregs. Ég var að starfa sem leiðbeinandi í ungmenna og tómstundabúðunum á Laugum í Sælingsdal, með því yndælis fólki Önnu Margréti Tómasdóttur sem er frá Akranesi og Jørgen Nilson manninum hennar. Árið 2007 flutti ég til Noregs en þá var ég tvítugur.“

Jón Valur býr á sveitabæ ásamt fjölskyldu sinni á fallegum stað í á vesturströnd Noregs. 

„Noregur er yndislegt land að búa í. Hér er allt rólegt, mikil samheldni í gangi og svona sveita – og þjóðarrómantík í gangi hérna þar sem við búum. 

 Við búum á sveitabæ í Anderstun í Store Høydal, í Kinn kommune á vesturströnd Noregs. Ég er giftur norskri konu, Helene H. Tyvold heitir hún og við eigum tvo yndislega „vitleysinga“, Maren Ýr sem er 6 ára, og Kristian Olai sem er 3ja ára,“ segir Jón Valur en hann starfar sem sjúkraflutningamaður samhliða því að vera frístundabóndi.

„Við erum með 30 rollur hér á bænum, ég er einnig í sveitarstjórn og er formaður heilbrigðis – og velferðarmálanefnd. 


Jón Valur segir að hann sakni margs frá Íslandi og þá sérstaklega fjölskyldunnar. Jón Valur á þrjú systkini á Íslandi og tvö þeirra eru búsett á Akranesi. Hallgrímur Ólafsson leikari er elstur eða „Halli Melló“ og býr hann í Hafnarfirði. Gunnar Hafsteinn eða Gunni Hó á Gamla Kaupfélaginu og Guðný Birna eru bæði búsett á Akranesi. Foreldrar þeirra eru Sigþóra Gunnarsdóttir og Ólafur Hallgrímsson. 


Frá vinstri: Gunnar, Guðný, Sigþóra, Hallgrímur og Jón Valur.
Ólafur Hallgrímsson.

„Ég á frábæra fjölskyldu heima sem ég sakna að sjálfsögðu og vinahópurinn minn er sá flottasti sem til er. Halli bróðir minn hefur alltaf verið fyrirmynd mín í tónlist þrátt fyrir að hann sér algjör amatör við hliðina á mér,“ segir Jón Valur í léttum tón. „Við systkinin erum mjög náin og góðir vinir. Höfum alltaf verið það þótt við séum mjög ólík og mikli skaphundar.