Eitt tonn af ryki á sveimi um Hvalfjarðargöngin í hverri viku á naglatímanum


Vegagerðin tók við rekstri Hvalfjarðarganga 1. október 2018.

Gísli Eiríksson forstöðumaður jarðgangadeildar Vegagerðarinnar skrifaði áhugaverðan pistil nýverið yfir það helsta sem gert hefur verið síðasta eina og hálfa árið. Hér er brot úr pistlinum þar sem að kastljósinu er beint af rykinu sem myndast í göngunum.

Sjá nánar á vef Vegagerðarinnar.

Ryk í Hvalfjarðargöngunum er stórt vandamál. Rykið er fyrst og fremst á veturna og orsakast af sliti á malbiki, til dæmis vegna nagladekkja. Talið er að 1 tonn af ryki geti losnað úr malbiki á einni viku á naglatímanum.

Almenn grunnregla er að þvo og sópa ryki í göngum fremur en að blása því. Blásararnir í göngunum blása að vísu fínasta rykinu, sótmenguninni, en mikið síður stærri kornum sem bílar þyrla upp en detta svo fljótt niður. Ákveðið var að þvo meira en gert hafði verið og minnka heldur blástur. Göngin eru þvegin fjórum sinnum á ári, mismikið í hvert sinn, í stað tvisvar áður.

Aðgengi að vatni er mikilvægt enda yfir 100 rúmmetrar af vatni notaðir í hverjum þvotti. Vatn hefur undanfarin ár verið sótt niður á höfn á Akranesi sem er bæði tímafrekt og dýrt. Búið er að finna lausn og semja við Veitur sem hafa sett upp vatnstökustað við vigtunarplan Vegagerðarinnar við Blikdalsá 1,5 km frá gangaenda en rúmlega tíu km eru á Akranes. Þar er einnig gott plan fyrir þvottabílana til að snúa við og athafna sig.

Í vetur hefur verið farið með sérstakan götusóp með kraftmikilli ryksugu í göngin vikulega. Sópnum er ekið fram og til baka og báðar akreinar sópaðar. Samkvæmt vigt bílsins nær hann upp meira en hálfu tonni í hvert sinn.