Sprengjudeild Landhelgisgæslunnar var við störf s.l. fimmtudag á Byggðasafninu á Görðum þar sem að sprengja úr skipinu El Grillo fannst í geymslu safnsins.
Þetta er í annað sinn á þessu ári sem að sprengjudeild Landhelgisgæslunnar er kölluð út í verkefni í safninu eins og sjá má í frétt Skagafrétta hér fyrir neðan.

Jón Allansson, forstöðumaður Byggðasafnsins segir að sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar hafi verið kallaðir til í gær þegar önnur patróna úr El Grillo hafi fundist í geymslu safnsins.
„Þeir komu samdægurs og gegnumlýstu sprengjuna. Við þá skoðun kom í ljós að sprengjan var óvirk. Henni verður því ekki fargað. Sprengjan hefur því fengið safnnúmer og er skráður safnmunur í safnkosti Byggðasafnsins í Görðum,“ segir Jón við Skagafréttir.

Hermann Hermannsson, málarameistari, treysti sér til þess að handfjatla sprengjuna eftir að hún hafði fengið „grænt“ ljós sem óvirkur safngripur af sérfræðingum Landhelgisgæslunnar.

