„Í dag stigum við stórt skref í átt að opnun landamæranna. Eigi síðar en 15. júní eiga ferðamenn að geta valið um að fara í COVID-skimun í Leifsstöð við komuna til landsins, eða framvísa jafngildu vottorði, í stað þess að fara í tveggja vikna sóttkví eins og nú er skylt,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra í færslu á fésbókinni í dag.
Ríkisstjórn Íslands greindi frá áformum sínum varðandi opnun landamæra Íslands vegna Covid-19 í dag.
Þar kom fram að reglur um svokallaða sóttkví-B verða útvíkkaðar frá og með 15. maí. Þær munu þá gilda um einstaklinga sem koma hingað til starfa í afmörkuð verkefni eins og vísindamenn, kvikmyndatökumenn og fleiri.
„Þróun ferðaþjónustunnar er áfram háð mikilli óvissu. Flugframboð er ein af forsendum viðspyrnu, sem og almennur ferðavilji á okkar helstu markaðssvæðum. En í dag tókum við þýðingarmikil skref í rétta átt,“ bætir Þórdís Kolbrún við.