Þaulreyndur danskur fimleikaþjálfari ráðinn til ÍA


Fimleikafélag Akraness skrifaði á dögunum undir samning við danska þjálfarann Henrik Pilgaard. Hann mun hefja störf í ágúst og verður í 100% starfi frá og með haustinu.

Pilgaard er 29 ára gamall og hefur mikla reynslu frá störfum sínum hér á landi. Hann hefur komið að þjálfun landsliða Íslands í hópfimleikum. Á síðsutu árum hefur hann verið yfirþjálfari hjá strákahópum hjá Stjörnunni.

Frá vinstri. Friðbjörg Eyrún Sigvaldadóttir formaður Fimleikafélags Akraness, Henrik Pilgaard og Þórdís Þráinsdóttir yfirþjálfari Fimleikafélags Akraness.

„Það er mikill fengur fyrir Fimleikafélag Akraness að fá hann til okkar og verður hann góð viðbót við flotta þjálfarateymið okkar,“ segir í tilkynningu frá Fimleikafélagi Akraness.

Stefnt er að því að fimleikahúsið við Vesturgötu verði tilbúið í byrjun sumars. Mikil eftirvænting ríkir hjá iðkendum félagsins og án efa mun reynslumikill þjálfari á borð við Henrik Pilgaard efla starf félagsins enn frekar.