Það var frekar einfalt mál fyrir Pétur Ottesen að smala saman hópnum sem fermdist í Innri-Hólms kirkju þann 18. maí árið 1980. Eins og sjá má á myndinni voru fermingardrengirnir fjórir alls. Engar stúlkur voru á fermingaraldri í Innr-Akraneshrepp hinum forna á þessum tíma.
Pétur segir að fyrir nokkru síðan hafi fermingarbræðurnir ákveðið að endurtaka myndatökuna sem framkvæmd var þann 18. maí árið 1980 eða fyrir sléttum 40 árum.
Á einni myndinni freistuðum við þess að vera með sem líkasta uppstillingu hvað líkamsbeitingu varðar. Það skemtilega er hvað þetta endurspeglar karakterana í myndefninu; Ingólfur Valdimarsson sýnir kurteisislegt og vinalegt bros, Pétur Ottesen drýpur höfði af hógværð og feimni við myndavélina, Gísli Rúnar að horfa á einhverja stelpu við hlið ljósmyndarans og Haraldur Benediktsson greinilega búinn að henda einhverri háðsglósu inn í hópinn. En lífið hefur farið bærilega með okkur og öllum hefur okkur auðnast að fóta okkur vel eftir að við komumst í fullorðinna manna tölu. Til hamingju með það kæru fermingabræður,“ skrifar Pétur á fésbókarsíðu sína. Hann gaf góðfúslegt leyfi að fjallað yrði um þessa myndatöku á vef Skagafrétta.