„Útiguðsþjónustur hafa færst í vöxt á undanförnum áratugum, en það má kannski segja að með aukinni þekkingu og meðvitund kirkjunnar á umhverfismálum hafi vaknað enn frekari áhugi á útiguðsþjónustum.,“ segir Sr. Jónína Ólafsdóttir prestur í Garðaprestakalli.
Á Uppstigningardag verður útiguðsþjónusta í Garðalundi og að sögn Jónínu er það kjörið tækifæri til þess að njóta góðrar samveru í náttúrunni.
„Í þetta skiptið spilaði nýafstaðið samkomubann inní en það auðveldar okkur að geta boðið uppá guðsþjónustuna úti undir beru lofti þar sem einfaldara er fyrir fólk að halda tveggja metra reglunni.
Það er dásamlegt að athafna úti í Guðs grænni náttúrunni en þar gefst okkur færi á að njóta útivistar, samfélags og hvíla í okkur sjálfum og Guði.
Útiguðsþjónustan skapar líka rými til að hvíla í þökk til Guðs fyrir sköpunarverkið og minnir okkur á að ganga vel um jörðina. Manneskjan er hluti af náttúrunni og ekki yfir hana hafin. Hún ber ábyrgð og þeirri ábyrgð fylgir sú siðferðilega skylda að hlú að öllu lífi.
Við hvetjum sóknarbörn Garða- og Saurbæjarprestakalls til að koma og eiga með okkur notalega samverustund á fimmtudaginn kemur í Garðalundi,“ segir Jónína en guðsþjónustan hefst kl. 11.00.