ÍATV sýnir beint frá einu sterkasta golfmóti ársins – B59 hotel mótið á Garðavelli


Allir bestu kylfingar landsins eru á meðal keppenda á B59 Hotel mótinu sem hófst föstudaginn 22. maí á Garðavelli á Akranesi en Golfklúbburinn Leynir sér um framkvæmd mótsins.

Leiknar verða 54 holur eða þrír keppnishringir á þremur keppnisdögum. Mótið er fyrsta mótið af alls fimm sem eru á stigamótaröð GSÍ tímabilið 2020.

Bestu kylfingar landsins eru skráðir sig til leiks. leiks, atvinnukylfingar sem og áhugakylfingar. Alls eru 125 kylfingar skráðir til leiks, 98 karlar og 27 konur.

Þrír kylfingar úr röðum Golfklúbbsins Leynis eru á meðal keppenda, Björn Viktor Viktorsson, Alex Hinrik Haraldsson og atvinnukylfingurinn Valdís Þóra Jónsdóttir.

Guðrún Brá Björgvinsdóttir (GK), Ólafía Þórunn Kristinsdóttir (GR) eru einnig á meðal keppenda – og er þetta í annað sinn á einni viku sem þær eru allar þrjár að keppa á sama mótinu. Það eru fjögur ár frá því að þær voru allar á sama tíma við keppni á Íslandi eða á Íslandsmótinu 2016 á Akureyri.

Keppendur skrá skor sitt sjálfir eftir hverja holu og er hægt að fylgjast með gangi mála í hlekknum hér fyrir neðan.

Skor – holu fyrir holu – smelltu hér.

Rástímar – smelltu hér.

Í karlaflokki eru einnig sterkustu leikmenn landsins skráðir til leiks. Má þar nefna atvinnukylfinga á borð við Andra Þór Björnsson (GR), Guðmund Ágúst Kristjánsson (GR), Harald Franklín Magnús (GR), Bjarka Pétursson (GKB), Axel Bóasson (GK), Rúnar Arnósson (GK), Ólaf Björn Loftsson (GKG) og fleiri.

Á Akranesi er öflugt teymi sjálfboðaliða sem standa að sjónvarpsstöðinni ÍATV sem sendir út á samfélagsmiðlinum Youtube. ÍATV mun sýna frá mótinu á tveimur síðustu keppnisdögunum.

Á laugardag verður sýnt frá 9. flöt Garðavallar og á lokahringnum verður sýnt frá 18. flöt þegar spennan nær hámarki. Útsendingunni og skori keppenda verður verður varpað upp á skjám í frístundamiðstöðinni Garðavöllum við Garðavöll.