Á Akranesi er öflugur hópur sem stundar sjóböð nánast í hvaða veðri sem er. Félagar í Sjóbaðsfélagi Akraness leyndu ekki gleði sinni um s.l. helgi þegar Langisandur og hin eina sanna Guðlaug vöknuðu til lífsins á ný eftir erfiðar vikur vegna „Covid-ástandsins.“
Langisandur er að margra mati eitt besta svæðið á Íslandi til þess að stunda sjósund. Og Guðlaugin hefur svo sannarlega vakið enn meiri athygli á þessu frábæra útivistarsvæði á Akranesi.
Langisandur er kaldasta Bláfánaströnd veraldar. Bláfáninn var dreginn að húni við Langasand nýverið og er þetta í áttunda sinn sem ströndin fær þessa alþjóðlega viðurkenningu,
Bláfáninn er tákn um góða frammistöðu í umhverfismálum. Um er að ræða alþjóðlegt umhverfismerki sem veitt er smábátahöfnum, baðströndum og þjónustuaðilum í sjávarferðamennsku fyrir árangursríkt starf að umhverfismálum.