Geir Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Knattspyrnufélags ÍA, skrifar áhugaverðan pistil á fésbókarsíðu sína sem ber nafnið Covid-19 og 20-fótbolti. Framkvæmdastjórinn hefur pistilinn á því að hann sé 100% á ábyrgð höfundar sem hefur gegnt ýmsum hlutverkum í knattspyrnu um heim allan og gerir enn.
Miklar voru væntingar knattspyrnufélaga um stuðning í erfiðum aðstæðum frá KSÍ sem situr á digrum sjóðum og eitthvað gæti kannski komið frá ríkisvaldinu þegar 450 mkr. var ráðstafað sem Covid-19 stuðningi við íþróttir. Hrósa ber ríkisvaldinu fyrir að hafa ekki gleymt íþróttum alfarið eins og svo oft áður, kannski kom stuðningur til vegna þess að innan stjórnkerfisins er fólk sem vissi allan tímann að hlutbótaúrræðin hjálpaðu lítið í heimi íþrótta á Íslandi. Eftir erfiða fæðingu kom barnið í heiminn, skipting þar sem veldisvöxtur var nýtt fyrirfæri innan íþróttahreyfingarinnar og notað sem stuðull, hvergi var stuðull sem var hagfelldur dreifbýli og fámenni, hvergi var stuðull um fjölda titla eins og AC Milan tókst að koma á þegar fjármunum í keppni þeirra bestu í Evrópu er skipt og þannig mætti áfram telja. Það sem augljóslega vantaði var að í hópi þeirra sem véluðu með fjármagnið kæmu sjónarmið landsbyggðar að borðunum. Reyndar er það svo að þegar slíkt er rætt eiga allir rætur út á land, en hæfi eða vanhæfi byggist hins vegar á hagsmunum sbr. ýmis mál sem íslensk þjóð hefur þurft að glíma við á alþjóðlegum vettvangi.
Knattspyrnufélög um heim allan glíma nú við áður óþekktan rekstrarvanda og íslensk knattspyrnufélög fara ekki varhluta af því ástandi, mikið tekjufall hefur blasað við frá því Covid veiran nam land á Íslandi. Í miklum rekstrarvanda leita íslensk knattspyrnufélög allra leiða til að skera niður í rekstrinum, endursemja við leikmenn, þjálfara og aðra starfsmenn. Knattspyrnufélög eru skuldbundin af samningum við leikmenn sem efna þarf til þess að samningssambandið sé tryggt skv. reglum sem FIFA hefur sett og byggja á sérstöðu knattspyrnuleiksins. Að auki glíma knattspyrnufélög við fjárhagslegar þrengingar hjá fyrirtækjum og ýmsar takmarkanir settar af yfirvöldum sem hafa bein áhrif á tekjur og útgjöld þeirra. Í þessu ástandi leituðu félög í efstu deild fjárhagsstuðnings hjá Knattspyrnusambandi Íslands með sameiginlegu bréfi sem flestir formenn félaganna rituðu undir. Enn hefur ekki borist skriflegt svar frá stjórn Knattspyrnusambands Íslands nokkrum vikum síðar.
Hafa ber í huga eftirfarandi staðreyndir sem auðvelda eiga Knattspyrnusambandi Íslands ákvörðun þegar kemur að stuðningi við aðildarfélögin:
- Sterk fjárhagsstaða KSÍ – Ársreikningur KSÍ sýnir að 31. des. 2019 voru bankainnistæður um 800 mkr. og óráðstafað eigi fé um 700 mkr (50% fastafjármunir).
- Dreifibréf FIFA númer 1715 til aðildarsambanda frá 24. apríl sl. þar sem tilkynnt er að FIFA vinni að heildstæðri áætlun til hjálpar vegna Covid-19 en strax verði um 70 mkr. sendar til aðildarsambanda (en þessir fjármunir áttu að berast í júlí í skilgreind verkefni). Þessi fjármunir skuli notaðar eins og segir í bréfi FIFA til að milda fjárhagslegar afleiðingar Covid-19 á fótbolta í aðildarsamböndunum.
- Dreifibréf UEFA númer 25/2020 til aðildarsambanda frá 27. apríl sl. þar sem tilkynnt er um breytingar á reglum UEFA um notkun á styrkjum til aðildarsambanda (svokölluðum HatTrick styrkjum) sem gefur aðildarsamböndunum svigrúm til að nýta styrkina vegna fordæmalausra áhrifa Covid-19 faraldurins. M.a. kemur fram að nota megi árlegt framlag allt að 380 mkr (2,4 mEvra) til Covid-19 verkefna. Í bréfi UEFA kemur einnig fram að aðildarsambönd geti notað 33% sem jafngildir um 240 mkr. (1,5 mEvra) af sérstökum stuðningi UEFA til fjárfestinga á tímabilinu 2020-2023 (4,5 mEvra) innan aðildarsambanda í þarfir tengdar Covid-19.
Það getur ekki talist ásættanlegt að KSÍ leiti ekki allra leiða til að nýta sér heimildir UEFA og FIFA sem greinir frá hér að ofan, nú þegar við íslenskum knattspyrnufélögum blasir versta staða til rekstrar í manna minnum. Það er ekki ásættanlegt að KSÍ gefi þær skýringar að hverri krónu hafi verið ráðstafað þegar ljóst má vera að mörg hefðbundin verkefni sambandsins falla niður á þessu ári og verkefnum framtíðar megi forgangsraða í þágu stuðnings við íslensk knattspyrnufélög. Af um 70 mkr. framlagi FIFA og um 380 mkr. framlagi UEFA til reksturs á þessu ári má gera þá kröfu að a.m.k. 100 mkr. megi ráðstafa til íslenskra félaga. Þá eru ótaldar um 240 mkr. sem að með allri sanngirni og breyttri forgangsröðun má verja til stuðnings íslenskum félögum. Bara þetta jafngildir um 340 mkr. stuðningi við íslensk knattspyrnufélög og þá hefur ekkert verið hreyft við fjárhagsstöðu KSÍ eins og hún var fyrir Covid-19.