Ný verkefni á vegum Veitna munu skapa fjölda starfa og umsvif á Vesturlandi

1.290 m.kr viðbótarfjárfestingar Veitna á Vesturlandi

Á stjórnarfundi Veitna þann 8. apríl sl. voru samþykktar aðgerðir til að bregðast við þeim afleiðingum sem Covid-19 faraldurinn hefur haft á atvinnulíf landsins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veitum.


Veitur ætla að sýna samfélagslega ábyrgð í verki og auka fjárfestingar í mannaflsfrekum verkefnum sem hafa munu mikil áhrif í samfélaginu. Leiðarljósið er að viðhalda atvinnustigi í landinu eins og kostur er en áætlað er að aðgerðirnar skapi hátt í 200 störf á starfssvæði Veitna á suðvesturhorni landsins.

Samþykkt var að auka fjárfestingar Veitna um samtals 2 milljarða króna á árinu 2020. Jafnframt var samþykkt að stefna að því að auka fjárfestingar á árinu 2021 um allt að 4 milljarða króna en endanleg ákvörðun um aukningu fjárfestinga á árinu 2021 kemur til afgreiðslu við gerð fjárhagsspár í haust. Þessar fjárfestingar bætast við áður fyrirhugaðar fjárfestingar Veitna sem nema um 9 milljörðum kr. árlega. Veitur munu því fjárfesta fyrir samtals 11 milljarða króna á þessu ári og líklega 14 milljarða króna árið 2021.

Fjölmörg verkefni á Vesturlandi

Veitur hafa undanfarið skilgreint mikilvæg verkefni á Vesturlandi sem ráðist verður í á næstu tveim árum. Framkvæmdafé hefur verið aukið um 690 m.kr í ár og 570 m.kr á næsta ári. Samtals verður því 1.260 milljónum varið í viðbótarframkvæmdir á Vesturlandi á þessu ári og næsta.

Í Borgarbyggð er áformað að bora nýja borholu vatns við Grábrók og auka lýsingu á neysluvatni auk þess sem endurbætur verða gerðar á vatnsbóli við Hvanneyri. Hitaveituframkvæmdir felast í endurnýjun safnlagna hitaveitu við Deildartungu og endurnýjun á Deildartunguæð við Grjóteyri og Hvanneyri. Mikil uppbygging hefur verið í fráveitu í Borgarbyggð á síðustu árum og verður nú farið í að tengja síðustu húsin í bænum við hana. Gert er ráð fyrir að þessar framkvæmdir kosti 440 m.kr.

Á Akranesi er í bígerð að taka upp nýtt vatnsból og byggð verður ný starfsstöð Veitna á Vesturlandi. 620 m.kr. verður varið í þessi verkefni.

Í Grundarfirði verður sett lýsingartæki við vatnsból og reistar girðingar til að tryggja gæði neysluvatns. Einnig verður farið í viðhald á vatnstanki. Áætlað er að þessi verkefni kosti um 60 m.kr.

Afla á viðbótarvatns í Stykkishólmi og koma upp varavatnsbóli fyrir bæinn. Það kostar 70 m.kr.

Að auki verður farið í ýmis minni verkefni til að bæta rekstraröryggi og þjónustu, efla vatnsvernd og tryggja auðlindir til framtíðar og verða um 200 m.kr. settar í þau.

Gestur Pétursson, framkvæmdastjóri Veitna:

Gestur Pétursson.

„Við erum afar stolt og ánægð með að Veitur geta lagt sín lóð á vogarskálarnar og aukið umsvif í hagkerfinu nú þegar hin lamandi hönd covid veirunnar hefur farið yfir landið. Þessar fjárfestingar okkar munu bæta dreifikerfi vatns- rafmagns- og fráveitu á starfssvæði Veitna. Verkefnin á Vesturlandi munu fjölga störfum og samhliða auka samkeppnishæfni atvinnulífs og tryggja betri lífsgæði íbúa til framtíðar.“

Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri Akranesskaupstaðar:

„Það er afar ánægjulegt að sjá fyrirtæki okkar Veitur styðja við samfélagið með flýtiframkvæmdum sem munu efla og styðja við starfsemi Veitna á Akranesi. Veitur verða því meðal fyrstu fyrirtækja sem munu byggja upp Flóahverfið sem er nýtt atvinnuhverfi hér við Akranes. Jafnframt er afar ánægjulegt flýta eigi vinnu við nýtt vatnsból fyrir Akranes og verður spennandi að sjá framvindu þess á árinu.”

Þórdís Sif Sigurðardóttir, sveitarstjóri Borgarbyggðar:

Það er virkilega ánægjulegt að Veitur hafi bolmagn til að fara í viðbótarfjárfestingar á tímum Covid-19 veirunnar og leggja þannig lóð á vogarskálarnar til viðspyrnu fyrir atvinnulífið. Veitur í samstarfi við Borgarbyggð, hafa valið veigamikil verkefni sem þarf að ráða bót á, þar má sérstaklega nefna endurbæturnar á neysluvatni við Grábrók og tengingu húsa við fráveitukerfi. Mikil og hröð uppbygging hefur verið í fráveitu- og neysluvatnskerfum sveitarfélagsins og hafa þær aðgerðir bætt lífsgæði íbúa og gæði vatns tryggð fyrir atvinnulífið. Sveitarfélagið gerir vonir um að uppbygging haldi áfram með sama móti og undanfarin ár.“