Er þriðja holan á Garðavelli „draumahola“ ársins 2020?


Draumahöggunum heldur áfram að rigna inn á Garðavelli hjá Golfklúbbnum Leyni.

Helga Rún Guðmundsdóttir sló draumahöggið sitt í dag á þriðju braut vallarins.

Helga Rún var keppendi á fjölmennu styrktarmóti fyrir barna – og unglingastarf Leynis. Keppendur voru rúmlega 130.

Eins og áður segir hefur þriðja holan á Garðavelli verið „draumahöggsholan“ á golfsumrinu það sem af er.

Elísabet Valdimarsdóttir og Guðjón Theodórsson slógu draumahöggið á þriðju braut á mánudag og þriðjudag í síðustu viku,

Meðalkylfingur þarf 12.500 tilraunir að meðaltali til þess að ná því að fara holu í höggi. Atvinnukylfingar þurfa aðeins færri tilraunir, eða um 2.500, til þess að sjá boltann detta ofaní holuna eftir upphafshöggið.

Laufléttar upplýsingar um draumahöggið í golfi.

Á hverju ári eru um 150.000 draumahögg slegin á heimsvísu. Allir kylfingar hafa látið sig dreyma um að fara holu í höggi en hverjar eru líkurnar á því að slíkt gerist?

12.500 – Meðalkylfingur þarf 12.500 tilraunir til þess að ná því að fara holu í höggi.

5.000 – Lágforgjafarkylfingur þarf um 5.000 tilraunir til þess að slá boltann ofan í holuna í teighögginu.

2.500 – Atvinnukylfingar þurfa aðeins færri tilraunir, eða um 2.500, til þess að sjá boltann detta ofaní holuna eftir upphafshöggið.

51 – Oftast allra – heimsmet: Bandaríkjamaðurinn Mancil Davis er sá kylfingur sem hefur oftast farið holu í höggi. Davis er PGA-kennari og hefur slegið draumahöggið í 51 skipti á ferlinum.

200 ára biðtími – Meðalkylfingur þarf 200 ár til þess að ná draumahögginu en þeir kylfingar sem leika 75 hringi að meðaltali á ári þurfa aðeins að bíða í 30 ár eftir að ná því að fara holu í höggi.

Þriðjudagar – Á hvaða vikudegi eru mestar líkur á því að fara holu í höggi? – Jú, það er á þriðjudögum, samkvæmt tölfræðisamantekt á heimsvísu.

Lengsta færið: Mike Crean dúndraði boltanum ofan í holuna af 472 metra færi á par 5 holu á golfvelli í Denver í Colorado-ríki í Bandaríkjunum. Hann gat reyndar stytt sér leið með því að slá yfir skóg, sem hann gerði, og niðurstaðan var fullkomin.

1% kylfinga á Íslandi

Samkvæmt tölfræði sem birt er á vef Einherjaklúbbsins á Íslandi fara 1% kylfinga landsins holu í höggi árlega. Rétt tæplega þó, því 130-140 draumahögg eru slegin árlega af íslenskum kylfingum.

Ragnar Einarsson er yngsti íslenski kylfingurinn sem hefur farið holu í höggi. Hann var sex ára árið 1994 þegar hann fór holu í höggi. Arnar T. Sigþórsson er sá elsti sem hefur afrekað að fara holu í höggi af íslenskum kylfingum. Hann var 98 ára gamall árið 1985 þegar hann sló draumahöggið.

http://localhost:8888/skagafrettir/2020/05/26/draumahoggunum-rignir-a-gardavelli-elisabet-og-gudjon-i-einherjaklubbinn/