Knattspyrnufélag Kára á Akranesi komst í gegnum fyrstu umferðina í Mjólkurbikarkeppni KSÍ í dag. Knattspyrnufélag Vesturbæjar var mótherji Kára og var leikið á gervigrasvelli KR í Vesturbænum.
Leikurinn var í járnum í 90 mínútur og réðust úrslitin í framlengingu. Þar voru Káramenn sterkari og lönduðu 3-0 sigri. Andri Júlíusson skoraði tvívegis fyrir Kára og Óliver Darri Bergmann Jónsson skoraði þriðja markið.
Kári mætir liði Leiknis úr Reykjavík í 2. umferð föstudaginn 12. júní. Þetta var fyrsti leikur Kára undir stjórn Gunnars Einarsson þjálfara liðsins. Hann mætir gömlu lærisveinum sínum úr Leikni í 2. umferð en þar hóf Gunnar þjálfaraferilinn sem aðstoðarmaður Sigursteins Gíslasonar.